Uppdaterad: ágúst 20, 2024

Afleiðingar reykinga

Leitar þú að hvatningu til að hætta að reykja? Hér finnur þú lista yfir afleiðingar reykinga. Hvaða áhrif reykingar hafa á líkamann og hvaða sjúkdóma þú ert í hættu á að fá.

Þegar þú hefur lesið listann og um það sem gerist í líkamanum hugsar þú kannski, „nú er tími til að hætta!“.

Ef þú veltir því fyrir þér að draga úr reykingum, eða að hætta alveg, hefur þú þegar tekið fyrsta skrefið. Það er aldrei of seint að hætta að reykja. Líkami okkar hefur ótrúlega getu til að ná bata! Mundu að sérhver sígaretta sem þú sleppir er unninn sigur. 🏆


 

Afleiðingar reykinga – listinn sem þú verður að lesa


Hvernig valda reykingar hárlosi?

Reykingar hafa neikvæð áhrif á allt blóðrásarkerfið.

Skert flæði blóðs og súrefnis vegna reykinga getur skemmt hársekkina þína, þynnt hárið og jafnvel valdið hárlosi.

Hvernig valda reykingar höfuðverk?

Langflestir hafa einhvern tímann fengið höfuðverk. Yfirleitt er slíkt ekkert hættulegt og líður fljótt hjá. 🤯

Höfuðverkur getur meðal annars skapast vegna spennu en hann getur einnig orsakast af reykingum. Þegar þú kveikir í sígarettu þá losnar meðal annars eitruð lofttegund (kolmónoxíð) og hún getur valdið höfuðverk.

Af hverju fær maður höfuðverk af reykingum?

Kolmónoxíð (eitruð gastegund) myndast við brennslu náttúrulegra efna í sígarettum.

Rauðu blóðkornin flytja súrefni til allra líffæra líkamans. En rauðu blóðkornin bindast frekar kolmónoxíði en súrefni. Það þýðir að rauðu blóðkornin flytja kolmónoxíð um líkamann í stað súrefnis.

Kolmónoxíð getur orsakað svima, höfuðverk og ógleði.

Hvaða áhrif hafa reykingar á augun?

Reykingar geta valdið sjónskerðingu. Þú getur fengið gláku, sem er sjúkdómur sem veldur því að allt verður hálf óskýrt.

Reykingafólk fær einnig frekar en aðrir aldurstengda sjónskerðingu 🙈

Þegar þú reykir eykst hættan á dreri (ský á auga) og jafnvel gláku. Gláka veldur þokukenndri sjón og þegar um slíkt er að ræða er aðgerð eina lausnin. Samanborið við aðra er reykingafólk í hættu á að þróa með sér aldurstengda sjóndepilsrýrnun. Slíkt getur leitt til varanlegs sjóntaps þar sem reykingar eru aðal orsakaþátturinn.

Hvaða áhrif hafa reykingar á tennurnar?

Það að tennur byrji að losna getur hrjáð bæði reykingafólk og þá sem ekki reykja. Reykingar hins vegar fela fyrstu varúðareinkenni lausra tanna!

Reykingafólk getur því misst af því hvað er að gerast. Tannholdið lítur mikið betur út en það er í raun og veru. Þess vegna uppgötvar þú ekki vandamálið fyrr en það fer að verða virkilega alvarlegt.

Reykurinn gerir tennurnar einnig mislitar. 🙊

Viðvörunarmerkin um tannholdsbólgu á byrjunarstigi geta verið blæðandi tannhold eða eymsli. Reykingamenn eiga það á hættu að missa af fyrstu viðvörunarmerkjum vegna þess að þeir eru með lakara blóðflæði. Reykingar geta látið tannholdið líta betur út en það er í raun og það getur þýtt að tannholdssjúkdómur uppgötvast ekki fyrr en á síðari stigum, þegar það getur verið miklu erfiðara að meðhöndla hann.

Hvernig áhrif hafa reykingar á eymsli í hálsi og hósta?

Reykingar geta stuðlað að hósta og eymslum í hálsi. Reykurinn ertir slímhúðina í hálsinum. Slíkt getur leitt til sviða eða til sársauka.

Hósti er í grunninn varnarviðbragð líkamans sem hann notar til að halda öndunarveginum hreinum.

Grunar þig að hóstinn þinn sé eitthvað meira en venjulegt kvef? 🤧 Þá skalt þú fara á heilsugæslustöðina og láta kíkja á þig.

Þrálátur hósti með seigum uppgangi (reykhósti) getur verið merki um langvinna lungnateppu.  Grunar þig að þú sért með lungnasjúkdóm? Hafðu samband við heilsugæsluna til að fá örugga greiningu. Heilsugæslan getur einnig hjálpað þér að hætta að reykja. Það mikilvæga er að þú komist að því af hverju þú hóstar svona og fáir rétta meðferð.

Hvaða áhrif hafa reykingar á lungun?

Áhrif reykinga eru mismunandi milli manna en allir reykingamenn verða fyrir einhverjum skaða á lungum.

Í lungunum eru milljónir lítilla lungnablaðra  sem geta eyðilagst varanlega við reykingar. Þegar þú reykir berst einnig tjara ofan í lungun. Það gerir lungunum erfiðara fyrir að flytja súrefni um líkamann og tryggja að þú getir andað eðlilega.

Reykingar koma bæði tjöru og kolsýringi í lungun sem dregur enn frekar úr flutningi súrefnis um líkamann. Þegar þú reykir verður erfiðara fyrir lungun að taka upp súrefni.

Reykingar hafa mismunandi áhrif á fólk, en tjónið sem þær valda er varanlegt. Tjónið sem skapast þegar þú reykir breytist í eðlilegt öldrunarferli þegar þú hættir að reykja. Hættan á að þjást af alvarlegum öndunarfærasjúkdómum getur einnig minnkað eftir að þú hættir að reykja.

Hvaða áhrif hafa reykingar á meltingarkerfið?

Getur manni orðið illt í maganum af reykingum? Já, efni í reyknum geta hægt á þarmahreyfingum sem veldur því að meltingarkerfið þarf að erfiða meira sem leiðir til streitu og verkja.

Hætta er á því að reykingafólk geti fengið magasár þar sem reykingar hafa áhrif á ónæmiskerfið. Reykingar gera það einnig að verkum að magasár eru lengur að gróa.

Venjuleg einkenni tengd reykingum eru sársauki ofarlega í kvið, ógleði og þú mettast mjög fljótt þegar þú borðar.

Hvernig hafa reykingar áhrif á efnaskipti líkamans?

Reykingar auka hraða efnaskipta líkamans og geta einnig dregið úr matarlyst.

Þetta gæti valdið þér áhyggjum af því að þú þyngist þegar þú hættir að reykja. En rannsóknir sýna að þetta samband er aðeins flóknara – margir langtíma reykingamenn þyngjast í raun með tímanum. Þetta er vegna þess að líkaminn venst eiturefnunum í sígarettunum.

Hvernig hafa reykingar áhrif á hjarta- og æðasjúkdóma?

Algengasta dánarorsök reykingafólks er hjarta- og æðasjúkdómar. Hættan á því að fá hjartaáfall yngri en 40 ára er fimm sinnum meiri hjá þeim sem reykja en hjá þeim sem reykja ekki.

Reykingar skerða virkni æða og hættan á blóðtöppum eykst. Í samanburði við þá sem ekki reykja ertu í tvöfalt meiri hættu á að fá hjartasjúkdóma, æðakölkun og heilablóðfall. Reykingar leiða til þess að fita og skellur myndast innan á æðaveggjunum sjálfum. Slík þróun eykur áhættuna á hjartaáfalli.

Rannsóknir hafa einnig sýnt að tóbaksreykingar valda bólgum í æðaveggjum. Veruleg tengsl eru á milli skellumyndunar og æðakölkunar. Reykingafólk er í meiri hættu á að þjást að æðakölkun í ósæð sem getur valdið meiriháttar fylgikvillum vegna skorts á blóðflæði um líkamann, sérstaklega fótleggja.  Slíkt getur leitt til blóðþurrðarheltis. Það er æðasjúkdómur sem veldur verkjum og kraftleysi í fótum (einkum kálfum) og helti sem kemur fram við gang og linast við hvíld. Blóðþurrðarhelti stafar af vaxandi blóðþurrð í vöðvum vegna blóðrásartruflunar í slagæð. Í alvarlegum tilvikum getur þurft að fjarlægja fæturna með skurðaðgerð. Samkvæmt Hjartavernd eru níu af hverjum tíu sem fá sjúkdóminn reykingafólk.

Hvaða áhrif hafa reykingar á blóðrásina?

Þegar þú reykir dregur úr flæði blóðs um líkamann.

Þar sem blóðflæði er minna eru allar bólgur lengur að hjaðna. Að auki er hjartað undir álagi og neyðist til að slá hraðar.

Blóðið flytur súrefni og næringu til allra líffæra líkamans svo að frumur þínar, vöðvar og innri líffæri geti starfað sem allra best. Mjólkursýra og úrgangsefni eru einnig flutt burt af blóðinu sem gefur vöðvum líkamans möguleika á því að jafna sig. Góð blóðrás veldur því að allar bólgur hjaðna frekar og læknast. En þegar þú reykir hamlar þú þessari virkni blóðrásarinnar. Minna súrefni en venjulega er flutt til líffæra líkamans og þrýstingurinn hækkar þegar blóðinu er dælt um líkamann en slíkt hækkar blóðþrýstinginn. Hjarta þitt lendir undir álagi þar sem það neyðist til að slá hraðar. Blóðið verður meira seigfljótandi, slímhimnur æðaveggjanna skaðast og þú færð minna blóðflæði út í fingur og tær.

Reykingar og sjúkdómar

Reykingamenn eru í meiri hættu á að þjást af ýmsum sjúkdómum. Sumir þeirra alvarlegir, jafnvel lífshættulegir.

Hver sígaretta sem þú kveikir í losar þúsundir eitraðra agna og lofttegunda. Þessar agnir berast síðan um líkamann uppleystar í blóði og brjóta niður varnir líkamans.

Hvaða sjúkdóma getur maður fengið af reykingum?

Hjarta- og æðasjúkdómar eru algengustu sjúkdómarnir sem tengjast reykingum. Þar á eftir koma lungnasjúkdómar. Hættan á því að fá krabbamein eykst. Reykingar geta einnig leitt til myndunar magasárs, sjónskerðingar, beinþynningar og tannslíðursbólgu.

Hvernig hafa reykingar áhrif á sýkingar í líkamanum?

Finnst þér þú fá kvef í hvert skipti sem einhver hóstar? Það er sennilega rétt hjá þér. Reykingar hafa mjög mikil áhrif á ónæmiskerfið og leiða til þess að líkaminn hefur mun minni varnir gegn sýkingum.

Hvernig geta reykingar haft áhrif á líkamsrækt og styrktarþjálfun?

Súrefni er nauðsynlegt fyrir líkamlega áreynslu. Reykingafólk er með lélegri blóðrás og þar af leiðandi á erfiðara með öndun. Þetta þýðir að geta þín til að halda orku á lengri æfingu eða auka styrk minnkar þegar þú reykir.

Þú munt því aldrei ná hámarks árangri í líkamsræktinni. Líkaminn þinn mun einfaldlega ekki geta gert sitt besta á meðan að þú reykir.

Ógleði – hvernig geta reykingar valdið ógleði?

Strax í fyrsta skipti sem þú reyktir gætir þú hafa fundið fyrir neikvæðum viðbrögðum líkamans. Ekki bara með hóstakasti heldur einnig með ógleði.

Eiturefnin í tóbaksreyknum gera það að verkum að þú getur fundið fyrir svima og ógleði.

Hvaða áhrif hafa reykingar á þreytu?

Finnst þér þú nákvæmlega ekkert hafa sofið þegar þú vaknar á morgnana? 🥱 Reykingarnar gætu verið ástæðan. Reykingar hafa neikvæð áhrif á gæði svefns. Þær geta leitt til þess að þú vaknar oft á næturnar. Það verður einnig erfiðara fyrir þig að sofna og djúpur endurnærandi REM-svefn minnkar. Heilinn og líkaminn hafa ekki fengið þá hvíld sem þau þurfa til þess að þér líði vel. Þetta verður til þess að þér líður þannig að þú sért þreyttari en þú þyrftir að vera.

Hvaða áhrif hafa reykingar á geðheilsu?

Geta reykingar valdið geðsjúkdómum?

Rannsóknir sýna að reykingafólk er í meiri hættu á að þjást af þunglyndi en þeir sem ekki reykja. Ekki er vitað hvað það er í sígarettum sem hefur þessi áhrif.

Aftur á móti eru í dag til sannanir fyrir því að þunglyndi og streita minnkar þegar hætt er að reykja.

Ólíkar tegundir reykingafíknar:

  • Efnafræðileg – nikótín er ávanabindandi efni og líkaminn upplifir fráhvarfseinkenni þegar hann fær ekki lengur nikótínið sem hann er vanur að fá.
  • Andleg – þér finnst eins og eitthvað vanti þegar þú reykir ekki. Reykingar geta orðið hluti af sjálfsmynd þinni.
  • Félagsleg – vissar aðstæður eins og veislur og kaffipásur geta kallað fram löngun í reykingar.
  • Vani – Það kemst upp í vana að fá sér sígarettu með fyrsta kaffibolla dagsins, eftir matinn og þegar síminn hringir

Reykingar hafa í för með sér:

  • Fimmtán sinnum meiri hættu á lungnakrabbameini.
  • Tíu sinnum meiri hættu á því að fá langvinna lungnateppu
  • Tíu sinnum meiri hættu á því að fá vélindakrabbamein
  • Fimm sinnum meiri hættu á að fá hjartaáfall yngri en 50 ára.
  • Þrisvar sinnum meiri hættu á því að fá hjartaáfall eftir 50 ára aldur.
  • Þrisvar sinnum meiri hættu á slagi
  • Þrisvar sinnum meiri hættu á krabbameini í þvagblöðru