Nikótíntyggigúmmí – að hætta að reykja með nikótíntyggigúmmíi
Þú vilt hætta að reykja en veist ekki hvernig þú átt að fara að. Kannast þú við þessa lýsingu? Þá ert þú ekki ein/n! Það eru margar ástæður fyrir því að hætta að reykja og margir eru í sömu stöðu og þú – þeir sjá og gera sér grein fyrir því hversu hættulegt og dýrt er að reykja.
En það getur verið erfitt að hætta. Til þess að þetta takist þarf hvatningu, þol og lyf sem geta hjálpað. Með góðum nikótínlyfjum eykur þú líkurnar á því að þú ljúkir ferlinu og að þér takist þetta. Það er vel mögulegt – heimurinn er fullur af fólki sem reykti einu sinni.
Með góðum ásetningi og stuðningi getur þú orðið ein/n af þeim. 💪
Allt um nikótíntyggigúmmí
Hvað er nikótíntyggigúmmí
Nikótíntyggigúmmí er tyggigúmmí sem inniheldur nikótín. Þú notar tyggigúmmíið til að draga úr reykingalöngun og vinna gegn fráhvarfseinkennum. Nikótíntyggigúmmí er til í tveimur ólíkum styrkleikum og með mismunandi bragði. Þannig er auðvelt fyrir þig að finna nikótíntyggigúmmí sem passar þér.
Mörgum finnst nikótíntyggjó vera nauðsynlegur stuðningur í baráttu sinni fyrir því að verða tóbakslaus.
Með nikótíntyggigúmmíi og með öðrum nikótínvörum færð þú hjálp við að draga úr löngun í reykingar án allra þeirra skaðlegu áhrifa sem tóbak hefur í för með sér.
Hvernig virkar nikótíntyggigúmmí?
Þegar þú tyggir nikótíntyggigúmmí losnar nikótín. Nikótínið er tekið upp af slímhúðinni í munninum, fer inn í blóðrásina og gerir það að verkum að fráhvarfseinkenni hverfa og löngunin í reyk minnkar.
Þú gerir eftirfarandi:
- Byrjar að tyggja – brátt finnur þú vel fyrir bragðinu.
- Hættir að tyggja í smá stund og geymir tyggigúmmíið til hliðar í munninum. Bragðið dofnar og nikótínið sogast upp gegnum slímhúðina í munninum.
- Byrjaðu aftur að tyggja og endurtaktu ferlið í u.þ.b. 30 mínútur.
Þú stjórnar upptöku nikótíns með því hvernig þú tyggur. Ef þú tyggur mikið þá losnar meira nikótín úr tyggjóinu. Þá átt þú á hættu að gleypa nikótínið í staðinn fyrir að láta líkamann taka efnið upp í gegnum slímhúðina í munninum. Það er svo sem ekki hættulegt, en þú getur fundið fyrir nikótíninu sterklega þegar þú kyngir því og þú færð ekki þau áhrif sem þú þarft til að losna við reykingalöngunina.
Þú skalt því alltaf nota tyggigúmmíið samkvæmt skrefunum hér að ofan – ef tyggjóið er notað á réttan hátt er það öflugt vopn gegn nikótínfráhvarfi.
Hvar get ég keypt nikótíntyggigúmmí?
Nikótíntyggigúmmí fæst án lyfseðils í apótekum eða í matvöruverslunum – en þú verður að vera orðin/n 18 ára til að mega kaupa það.
Einnig er hægt að kaupa nikótíntyggigúmmí á netinu.
Hvaða kostir og gallar eru við nikótíntyggigúmmí?
Fyrir suma getur nikótíntyggigúmmí verið fullkomin leið til að halda reykingalöngun í skefjum. En hjá öðrum eru það aðrar tegundir nikótínlyfja sem virka best. Við erum öll ólík og öll nikótínlyf hafa kosti og ókosti í för með sér.
Kostir nikótíntyggigúmmís geta verið:
- Gott og ferskt bragð í mörgum mismunandi útgáfum
- Einfalt í notkun
- Hefur hröð áhrif á reykingalöngun
- Hægt að stjórna losun nikótíns með því að tyggja mismunandi mikið
- Örvar munninn, sem getur verið gott fyrir þá sem eru að hætta að reykja
Ókostir nikótíntyggigúmmís geta verið:
- Óþægilegur kostur ef þú ert með tannvandamál
- Vissar aukaverkanir, eins og t.d. erting í hálsi og hálsbruni
- Einnota vara sem þú þarft að fleygja
- Getur valdið niðurgangi
Ertu ekki viss um að nikótíntyggigúmmí henti þér? Keyptu minnstu pakkninguna og prófaðu. Ef þér finnst tyggjóið óþægilegt eða ef það skilar ekki þeim árangri sem þú vilt skaltu muna að það eru til margar aðrar tegundir nikótínlyfja. Það eru miklar líkur á því að þú finnir einhverja lausn sem hentar einmitt þér.
Hvað inniheldur nikótíntyggigúmmí?
Virka efnið í nikótíntyggigúmmíi er auðvitað nikótín. Nikótínið losnar þegar þú tyggur og það er tekið upp af slímhimnunni í munninum. Nikótíntyggigúmmí getur einnig innihaldið sorbítól. Það er sykurtegund sem er til í náttúrunni, til dæmis í eplum og öðrum ávöxtum og berjum. Sorbítól er notað sem sætuefni og gefur tyggigúmmíinu gott bragð – það getur verið hægðalosandi ef þú færð of mikið af því.
Hefur nikótíntyggigúmmí einhverjar aukaverkanir?
Sumir eru næmari en aðrir og mismunandi fólk getur brugðist við á mismunandi hátt við ákveðnum hlutum. Nikótíntyggigúmmí fylgja nokkrar þekktar aukaverkanir sem geta komið fram. Ef þér finnst erfitt að nota tyggigúmmí getur þú prófað aðrar tegundir nikótínlyfja.
Dæmi um aukaverkanir nikótíntyggigúmmís:
- Ógleði
- Eymsli í hálsi
- Niðurgangur
- Hósti
- Hiksti
- Munnangur
- Ropi
- Þreyta
- Höfuðverkur
Er nikótíntyggigúmmí slæmt fyrir tennurnar?
Tygging á nikótíntyggigúmmíi getur ert tennur og tannhold. En samanborið við áhrif sígarettna á tennurnar, með mislitun og losnun tanna úr tannholdi, er tyggigúmmí mun betri valkostur.
Hve mikið nikótín inniheldur nikótíntyggigúmmí?
Nikótíntyggigúmmí er til í mismunandi styrkleikum sem gerir það að verkum að þú getur fundið skammtastærð sem hentar þér.
Algengur styrkleiki er:
- 2 mg
- 4 mg
Þar sem bæði er til sterkt og veikt nikótíntyggigúmmí áttu möguleika á því að taka nægt magn til að ráða við þín fráhvarfseinkenni. Því meiri sem dagleg neysla þín á tóbaki er, því sterkara tyggigúmmí þarft þú að hafa í upphafi.
Ef þú reykir minna en 20 sígarettur á dag, getur 2 mg tyggigúmmí verið nóg til að halda lönguninni í reykingar í skefjum. Ef þú ert stórreykingamanneskja verður þú að nota sterkara tyggigúmmí.
Hve lengi á ég að nota nikótíntyggigúmmí?
Lengd meðferðar er mismunandi milli einstaklinga, á sama hátt og tóbaksfíkn er mismunandi milli einstaklinga. Sumir losna tiltölulega auðveldlega við nikótínið en aðrir þurfa að glíma við þennan vanda mun lengur.
Ráðlögð meðferðarlengd er um það bil 3 mánuðir með nikótíntyggigúmmíi. Eftir það er mælt með að reyna að draga úr fjölda skammta á dag til að geta loksins lifað alveg án nikótíntyggigúmmís.
Þegar þú hefur komið reglu á notkun tyggigúmmís og þegar þér finnst þú geta höndlað löngunina í reykingar getur þú byrjað að minnka skammtastærðir. Flestir geta ráðið við 8 til 12 stykki af nikótíntyggjói á dag, óháð nikótínstyrk í tyggjóinu.
Hjá venjulegu fólki eru 8 til 12 tyggigúmmí á dag góður skammtur – án tillits til þess hversu mikið nikótín er í tyggigúmmíinu.
Notaðu aldrei meira en 24 nikótíntyggigúmmí á dag. Þegar þú skerð niður skammtinn getur þú til dæmis skipt yfir í veikara tyggigúmmí til þess að geta smám saman vanið þig alveg af því.
Reyndu að draga hægt og bítandi úr notkun tyggigúmmís. Langvarandi notkun nikótíntyggigúmmís í meira en eitt ár er ekki ráðlögð.
Ráð 1. Það er mikilvægt að upphafsskammturinn sé ekki of lágur. Undirskömmtun dregur úr líkum á að verða tóbakslaus.
Ráð 2. Finnst þér þú vera tilbúinn að hætta notkun nikótíntyggigúmmís? Finnst þér þú vera laus við fráhvarfseinkennin? Gott! Ef þú átt nokkur tyggigúmmí eftir í pakkningunni skaltu geyma þau. Jafnvel þótt þú sért reyklaus og hafir vanið þig alveg af notkun tóbaks getur verið góð hugmynd að vera með tyggigúmmí aðgengilegt – löngunin getur komið fram við ólíklegustu aðstæður og getur jafnvel komið fram þegar þú átt síst von á því. Að geta þá fljótt unnið gegn lönguninni í reykingar dregur úr líkunum á því að þú kveikir í sígarettu!
Hvernig veit ég hvort nikótíntyggigúmmí hentar mér?
Ef þú notar tyggigúmmí gæti verið einfalt fyrir þig að venjast nikótíntyggigúmmíi. Þá er það ekki framandi eða skrýtið að tyggja tyggigúmmí. Það getur einnig hentað þeim sem finnst erfitt að losna við vanann af því að vera með eitthvað í munninum – mörgu reykingafólki finnst nefnilega andlegi þátturinn og vaninn jafn erfiður viðfangs og líkamlega löngunin í nikótín.
Notkun nikótíntyggjógúmmís gerir manni kleift að stjórna því magni nikótíns sem losnar– það er til dæmis ekki mögulegt með nikótínplástri.
Nikótíntyggjó er auðvelt í notkun og handhægt að geyma í handtöskunni eða vasanum. Það er gott fyrir þig að vita að þú ert með tyggigúmmí við höndina þegar reykingalöngunin gerir vart við sig.
Eina leiðin til að vita hvort nikótíntyggigúmmí hentar þér er að prófa það.
- Færðu ekki þau áhrif sem þú vilt?
- Finnst þér tyggjóið bragðvont?
- Er erfitt að tyggja?
Þá eru til margar aðrar tegundir nikótínlyfja. Leitaðu ráða hjá lækni eða lyfjafræðingi. Að verða tóbakslaus ætti ekki að vera erfiðara en það nú þegar er.
Ó nei, ég gleypti nikótíntyggigúmmíið mitt! Er það hættulegt?
Nei – að kyngja nikótíntyggigúmmíi hefur enga sérstaka hættu í för með sér fyrir heilsuna. 😊 Tyggigúmmíið er hannað til að nota í munni og er aðlagað að slímhimnum munnholsins sem eiga að taka upp nikótínið. Ef þú gleypir óvart tyggigúmmíið helst nikótínið einfaldlega kyrrt í tyggigúmmíinu – líkaminn tekur ekki upp nikótínið í maganum og þú færð því ekki nægilega hjálp gegn fráhvarfseinkennum.
Get ég notað nikótíntyggigúmmí á meðgöngu?
Nikótín er skaðlegt fyrir fóstrið. Á meðgöngu ættir þú ekki að nota nikótínvörur til að hætta að reykja heldur beita öðrum aðferðum. Nikótínið í blóði móðurinnar berst nefnilega yfir til fóstursins og getur skert blóðflæðið til fylgju, legköku og legs – sem getur haft mjög neikvæð áhrif á þroska fóstursins eða orðið til þess að barnið fæðist fyrir tímann.
Nikótín berst einnig út í brjóstamjólk – þú átt því að forðast nikótíntyggigúmmí, nikótín og tóbak algjörlega á meðan þú ert með barn á brjósti.
Nikótíntyggigúmmí og börn
Börn eiga ekki að fá í sig nikótín – það er eiturefni og börn eru einkar viðkvæm fyrir því. Nikótíntyggigúmmí skal því að sjálfsögðu geyma þar sem börn hvorki ná til né sjá – sérstaklega vegna þess að það er svo gott á bragðið. Kannski hafa börnin vanist venjulegu tyggigúmmí og finnst það mjög gott? Þá getur nikótíntyggigúmmí verið lúmskt, þar sem það líkist hefðbundnu tyggjói.
Fleiri fréttir
Hættu að reykja með nikótín munnsogstöflum
Áttu erfitt með að finna það sem þig vantar í reyklausu hillunni í apótekinu? Það er skiljanlegt. Í dag er til mikill fjöldi ólíkra vörutegunda sem geta hjálpað þér að verða reyklaus. Eitt nýjasta ráðið eru nikótín munnsogstöflur – munnsogstöflur með nikótíni. Gott og ferskt myntubragð og áhrifarík virkni gegn fráhvarfseinkennum gera munnsogstöflurnar að vinsælum kosti.
Jafnvel þótt þú byrjir bara að minnka fjölda sígaretta sem þú reykir geta munnsogstöflurnar veitt mjög góðan stuðning. Hver sígaretta sem þú sleppir er sigur út af fyrir sig og frammistaða sem þú getur verið virkilega stolt/ur af.
Lendir þú stundum í aðstæðum þar sem þú mátt ekki reykja eða getur það ekki? Þá geta nikótín munnsogstöflurnar komið sér vel.
Allt um munnsogstöflur með nikótíni
Hvað eru nikótín munnsogstöflur?
Líkja má munnsogstöflunum við hálstöflur. Munurinn er fólginn í því að þær innihalda nikótín og hjálpa þér að berjast við reykingalöngunina í staðinn fyrir að lækna ráman háls. Munnsogstöflurnar eru með mildu mintubragði.
Nikótín munnsogstöflur eru til í tveimur styrkleikum. Veldu þann styrk sem hentar þér best í tilraunum þínum til að hætta að reykja.
Hvar kaupi ég munnsogstöflur með nikótíni?
Þú finnur munnsogstöflurnar í apótekum, matvöruverslunum og á netinu. Þær bragðast vel og eru áhrifarík meðferð fyrir marga sem reyna að hætta að reykja. Þú verður að vera 18 ára til þess að geta keypt nikótín munnsogstöflur.
Hvernig virka nikótín munnsogstöflur?
Það er bæði einfalt og skilvirkt að nota nikótín munnsogstöflur til að berjast gegn reykingalönguninni. Vertu með pakka í vasanum eða í veskinu til að vera tilbúin/n þegar reykingalöngunin kemur upp.
- Taktu nikótín munnsogstöflu þegar þú finnur fyrir reykingalöngun.
- Leggðu töfluna í munninn
- Ýttu töflunni með tungunni til hliðar eftir þörfum
- Taflan leysist upp eftir 10–15 mínútur
- Reykingalöngunin hefur minnkað verulega
Af hverju ætti ég að velja munnsogstöflur með nikótíni?
Einfaldar. Góðar. Fyrirferðarlitlar. Þannig má lýsa munnsogstöflum með nikótíni. Þegar þú finnur reykingalöngunina koma aftan að þér viltu geta brugðist við undir eins. Að vera þá með nikótín munnsogstöflu við hendina getur skapað mikið öryggi. Eftir að munnsogstafla er tekin tekur mjög skamman tíma að sigrast á fráhvarfseinkennum án óþæginda.
Munnsogstöflurnar geta verið góður valkostur ef þér finnst ekki gott að tyggja tyggigúmmí. Kannski ert þú með viðkvæmar tennur eða líkar ekki að þurfa að farga notuðu tyggigúmmíi.
Ert þú hrifin/n af fersku bragði? Þá geta munnsogstöflur með nikótíni hentað þér fullkomlega.
Hve oft og hversu margar munnsogstöflur með nikótíni þarf ég að taka?
Reykingavenjur og reykingalöngun eru mismunandi hjá hverjum og einum. Þess vegna getur bara þú sjálf/ur ákveðið hversu margar munnsogstöflur með nikótíni þú þarft.
Eftirfarandi getur verið gagnlegur leiðarvísir:
- 1 munnsogstafla á hverri klukkustund eða aðra hverja klukkustund.
- 8 til 12 munnsogstöflur á dag eru yfirleitt nægur skammtur.
Ef þú notar 2 mg munnsogstöflur máttu ekki taka meira en 24 töflur á dag. Ef þú vilt fá sterkari útgáfuna með 4 mg þá máttu taka að hámarki 15 munnsogstöflur á dag samkvæmt ráðlögðum skammti.
Þegar þú finnur að þú hefur náð stjórn á reykingalönguninni og ert tilbúin/n getur þú farið að draga úr þeim fjölda munnsogstaflna sem þú notar á dag.
Hvaða kostir og ókostir eru við nikótín munnsogstöflur?
Eins og við á um öll nikótínlyf þá henta þau misvel ólíkum einstaklingum. Öll hafa þau bæði kosti og ókosti og það á einnig við um notkun munnsogstaflna með nikótíni. Hafðu ávallt þig og þínar þarfir í huga. Að hætta að reykja er erfitt í sjálfu sér – það þarf ekki að verða enn erfiðara af því þú notar hjálpartæki sem hentar þér ekki. Hjálpartæki eiga jú að hjálpa!
Kostir munnsogstaflna með nikótíni:
- Fyrirferðarlitlar og auðvelt að hafa meðferðis – eins og venjulegar hálstöflur!
- Gott, ferskt bragð!
- Mismunandi styrkleikategundir mæta ólíkum þörfum
- Ódýrar
- Eykur munnvatnsframleiðslu – gott fyrir þá sem eru að hætta að reykja.
Ókostir munnsogstaflna með nikótíni:
- Nikótín getur ert hálsinn
- Súrir drykkir innan 15 mínútna áður en þú notar töfluna veldur minni frásogi og áhrifum.
- Geta valdið niðurgangi
Hvað innihalda munnsogstöflur með nikótíni?
Aðalinnihaldsefnið í munnsogstöflum með nikótíni er auðvitað nikótínið sjálft. Það er nikótínið sem gefur lyfinu áhrifamátt og sem hjálpar þér að komast í gegnum reykingalöngunartímabilin.
Önnur innihaldsefni sem er gott að vita um eru:
- Ísomalt (sykuralkóhól)
- Maltitól (sykuralkóhól)
Sumir geta verið ofurnæmir eða með ofnæmi fyrir ákveðnum sykrum. Ef þig grunar að þú þolir ekki þessar sykrutegundir ættir þú að ráðfæra þig við lækninn þinn áður en þú prófar nikótín munnsogstöflur.
Sykrurnar eru náttúrulega framleiddar úr maís og hveiti og eru ekki skaðlegar tönnum. Auk þess innihalda töflurnar fáar hitaeiningar – um 5 kaloríur í hverri töflu.
Hvaða aukaverkanir get ég fengið þegar ég nota munnsogstöflur með nikótíni?
Munnsogstöflur með nikótíni geta eins og önnur nikótínlyf stundum valdið aukaverkunum. Þessar aukaverkanir líða hjá en geta vissulega verið óþægilegar. Alltaf skal fara varlega í notkun nikótínlyfja og lesa fylgiseðilinn vandlega.
Algengar aukaverkanir munnsogstaflna með nikótíni eru:
- Eymsli í hálsi
- Hálsbólga/bakflæði
- Ógleði
- Meltingarvandamál
- Hiksti
Ræddu við lækni, hjúkrunarfræðing eða lyfjafræðing ef þú finnur fyrir alvarlegum aukaverkunum og ef þú þarft hjálp við að finna valkost sem hentar þér betur.
Hversu mikið nikótín innihalda munnsogstöflurnar?
- Munnsogstöflur sem innihalda 2 mg nikótín
- Munnsogstöflur sem innihalda 4 mg nikótín
Reykingalöngunin getur verið missterk milli manna. Þess vegna eru munnsogstöflur með nikótíni til í tveimur styrkleikum til þess að þú getir fengið skammtastærð sem hentar þér. Mismunandi styrkleiki munnsogstafla gerir þér einnig kleift að trappa niður notkun þeirra. Prófaðu að nota munnsogstöflur í styrkleikanum 2 mg. Ef þú finnur enn fyrir löngun í reykingar er betra að taka 4 mg munnsogstöflu í næsta skipti og trappa þig svo niður síðar.
Þú getur keypt munnsogstöflur með nikótíni í mismunandi pakkningastærðum – það eru til litlar og stórar pakkningar sem þú getur valið um. Pakkningar með 12 eða 72 töflum sem gerir þér kleift að stjórna neyslunni sjálf/ur.
Hversu sterkar eru munnsogstöflur með nikótíni samanborið við sígarettur og munntóbak?
Jafnvel sterkustu munnsogstöflurnar eru ekki jafn sterkar og sígarettur. Venjuleg stöðluð sígaretta inniheldur u.þ.b. 12 mg af nikótíni, einn munntóbaksskammtur inniheldur 8 mg af nikótíni (að sjálfsögðu eru til veikari og sterkari sígarettur og einnig tegundir munntóbaks).
Úbbs! Ég gleypti munnsogstöflu með nikótíni? Er það hættulegt?
Það er ekkert að óttast. Að gleypa munnsogstöflu með nikótíni er ekkert hættulegt – nikótín frásogast ekki eins vel í gegnum magann og í gegnum slímhúðina í munni. Áhrifin verða semsagt minni og hægari.
Gættu þess því að sjúga munnsogstöfluna alveg þangað til hún er alveg uppleyst. Með því að tyggja, brjóta og gleypa munnsogstöfluna ferð þú á mis við stuðningsáhrifin sem munnsogstaflan á að veita þér.
Munnsogstöflur með nikótíni og meðganga
Þegar þú ert barnshafandi skaltu forðast nikótín og tóbak algjörlega. Þetta þýðir að það er heldur ekki góð hugmynd að nota munnsogstöflur með nikótíni. Fóstrið getur orðið fyrir neikvæðum áhrifum af nikótíni – meðal annars skerðist blóðflæðið til fylgjunnar og til legsins. Reykingar á meðgöngu geta einnig leitt til fyrirburafæðingar og til lágrar fæðingarþyngdar.
Ef þú átt von á barni er best að reyna að hætta að reykja án þess að nota nikótínlyf. Ef þú ætlar að vera með barn á brjósti og notar tóbak eða nikótínvörur/lyf fær ungabarnið í sig nikótín gegnum mjólkina, sem getur verið skaðlegt barninu.
Ráðfærðu þig við lækninn eða ljósmóður um nikótínlausar aðferðir til að skera niður notkun sígarettna. Þú getur einnig hringt í reyksímann til að fá ráð og stuðning.
Munnsogstöflur með nikótíni og börn
Eins og gildir um öll nikótínlyf skal geyma munnsogstöflur með nikótíni þar sem börn hvorki ná til né sjá.
Hvað gerist eiginlega ef börn fá í sig nikótín? Efnið er eitrað og börn eru sérstaklega viðkvæm – venjulegur skammtur fyrir fullorðna manneskju getur reynst mjög skaðlegur barni. Barn sem er með nikótíneitrun getur þjáðst af eftirfarandi:
- Ógleði
- Uppköst
- Svimi
Ef þig grunar að barnið þitt hafi gleypt munnsogstöflu með nikótíni skaltu strax hafa samband við eitrunarmiðstöð/bráðamóttöku. Reyndu að skola munn barnsins með einhverju súru, t.d. appelsínusafi. Ávaxtasafinn kemur í veg fyrir að slímhimnur í munnholi taki upp nikótínið.
Ef barnið þitt sýnir einkenni nikótíneitrunar skaltu hringja á eitrunarmiðstöð og fara strax á bráðamóttöku.
Skilvirk og örugg meðferð með nikótín munnsogstöflum
Lestu fylgiseðilinn vandlega áður en þú notar nikótín munnsogstöflur. Mikilvægt er að fylgja ráðlögðum meðferðarskammti til að ná tilætluðum áhrifum. Bæði of háir og of lágir skammtar munu hafa slæm áhrif á árangur meðferðarinnar.
Hættu að reykja – ráðleggingar á vegferð þinni
Að takast að kveðja sígarettur fyrir fullt og allt er ekki auðvelt. Níkótínuppbótarmeðferðir eins og munnsogstöflur með nikótíni eru frábær hjálpartæki en eru í sjálfu sér engin kraftaverkalausn. Til að ná árangri gæti þurft nokkrar aðferðir og lífsstílsbreytingar.
Frábær byrjun er að telja upp kosti þess að vera tóbakslaus. Þú skalt spyrja þig: Hvað verður betra ef ég hætti algjörlega? Hlakkar þú til dæmis til að upplifa:
- Betri heilsu! Við höfum öll heyrt um skaðleg áhrif reykinga. Langvinn lungnateppa, lungnakrabbamein, aðrar tegundir krabbameina, hjarta- og æðasjúkdómar og sjúkdómar í munni eru allt sjúkdómar sem reykingafólk er í meiri hættu á að þróa með sér.
- Bætt öndun! Reykingar hafa mjög alvarleg áhrif á lungnagetu þína. Ef þú hættir finnur þú mjög fljótt fyrir miklum árangri.
- Bætt lyktar- og bragðskyn! Kemísku efnin í sígarettureyknum spila með bragðlaukana þína. Þegar þú verður tóbakslaus mun matur bragðast betur og þú munt taka eftir lykt sem þú hefur ekki tekið eftir í langan tíma.
- Meiri peningar í veskinu! Reykingar og notkun tóbaks kosta peninga. Reykir þú einn pakka af sígarettum á dag? Það eru um 685.000 krónur á ári! Peningar sem þú getur auðveldlega notað í eitthvað skemmtilegra.
- Fallegt bros og ferskur andardráttur! Tóbaksreykur veldur mislitun tanna og andfýlu.
Forðastu triggera
Með skýra mynd í huganum um ásetning þinn verður auðveldara að gefast ekki upp. Þú getur einnig reynt að komast að því hvað setur af stað löngun í reyk og fær þig til að efast. Eru það ákveðnar aðstæður, drykkja eða eitthvað annað sem tengir heila þinn við reykingar? Ef þú hefur stjórn á þessum þáttum, er auðveldara að forðast hluti sem kveikja í lönguninni.
Það er góð hugmynd að hafa nikótínlyf innan seilingar ef þú lendir í aðstæðum sem vekja upp löngun. Hafðu munnsogstöflu með nikótíni í vasanum og vertu viss um að þú getir ráðið við flestar aðstæður án þess að hætta á að þú freistist til að fá þér sígarettu.
Reglubundið hversdagslíf eykur möguleika þína
Að hafa skýrar venjur getur verið leið til að finna styrk í baráttunni gegn reykingum. Með því að koma á reglubundnum venjum hvað varðar mataræði, hreyfingu og svefn og sameina það með nikótínuppótarmeðferð gerir þig betur í stakk búinn til að takast á við reykingalöngunina.
Fleiri fréttir
Hættu að reykja með nikótínplástrum
Getur lítill plástur á handleggnum í raun og veru hjálpað mér að hætta að reykja? Vísindasamfélagið og reynsla fólks segir já! Nikótínplástrar eru ein þekktasta aðferðin til að hjálpa fólki að hætta að reykja. Þetta er viðurkennd og árangursrík aðferð sem hefur hjálpað mörgum.
Margt hefur gerst síðan nikótínplástrar komu fyrst fram á tíunda áratugnum. Bæði tæknin og varan hefur þróast og orðið árangursríkari og í dag er hægt að velja milli margra mismunandi tegunda af nikótínplástrum.
Ef þig dreymir um að losna við reykingar fyrir fullt og allt getur nikótínplástur orðið þér ómetanleg hjálp.
Allt um nikótínplástra
Hvað er nikótínplástur?
Nikótínplástrar eru ein algengasta varan til að venja sig af tóbaksnotkun. Nikótínplástrar hafa í um það bil 30 ár verið fáanlegir sem vel rannsakað og árangursríkt hjálpartæki fyrir þá sem vilja hætta að reykja. Margar klínískar rannsóknir hafa sýnt fram á góð áhrif og árangur nikótínplástra.
Notkun plástursins er einföld og góð. Plásturinn inniheldur einfaldlega nikótín sem frásogast gegnum húðina, berst inn í blóðrásina og dregur úr reykingalöngun og fráhvarfseinkennum.
Nikótínplástrar flokkast sem lyf og þá er hægt að kaupa í apótekum og í matvöruverslunum.
Hvernig virka nikótínplástrar?
Nikótínplástur er límdur á húðina eins og venjulegur plástur. Munurinn felst að sjálfsögðu í því að venjulegur plástur er settur á sár, á meðan nikótínplástrar eru notaðir til að venja fólk af því að reykja.
Plásturinn er settur á húðina og lítið magn nikótíns er frásogað í gegnum húðina. Með því að fá stýrt magn nikótíns sem er tekið upp af húðinni færð þú jafna, samfellda nikótínmeðferð yfir allan daginn.
Það eru til margar mismunandi tegundir nikótínplástra. Þú getur því fundið þá tegund sem hentar þér og þínum þörfum.
Mismunandi tegundir nikótínplástra eru til dæmis:
- Plástrar sem virka mismunandi lengi (t.d. 16 eða 24 klukkustundir)
- Plástur með mismunandi nikótíninnihald og styrk
- Mismunandi stærðir
- Mismunandi litir
Plásturinn berð þú á húðinni, yfirleitt á upphandlegg. En það virkar í raun að setja plásturinn hvar sem er á líkamann – kannski viltu hylja hann með klæðnaði eða kannski eru vissir hlutar húðarinnar viðkvæmari en aðrir.
Langar þig að prófa nikótínplástur? Prófaðu þig áfram. Finndu stað á húðinni sem hentar þér og fylgdu leiðbeiningum í fylgiseðli.
Hvaða kostir og ókostir eru við nikótínplástra?
Við erum öll einstök og höfum ólíkan smekk þegar nikótínlyf eru annars vegar. Það sem virkar fyrir einn getur getur alls ekki hentað næsta manni. Rétt eins og öll önnur lyf hafa nikótínplástrar kosti og ókosti.
Að hafa fullan skilning á því hvernig nikótínplástrar geta haft áhrif á þig auðveldar þér að finna vöru sem hentar þér og þínum þörfum.
Kostir:
- Með stöðugri losun nikótíns yfir daginn færðu jafnt magn af nikótíni í blóðið og ert því í minni hættu að fá skyndilega reykingalöngun
- Plásturinn dugar lengi, í heilan dag eða heilan sólarhring.
- Plástrarnir eru fyrirferðarlitlir og auðveldir í notkun
Ókostir:
- Stærsti ókosturinn er sá að nikótínplástrar virka hægt – ef þú færð skyndilega reykingalöngun getur tekið nokkra klukkutíma að finna áhrifin.
- Plástrarnir eru oft ansi dýrir
- Þú getur ekki stjórnað magni nikótíns sem þú færð í líkamann
- Geta ert húðina
- Örva ekki munninn, sem getur verið erfitt fyrir þá sem eru mjög vanir því að reykja.
Hvað innihalda nikótínplástrar?
Virka efni nikótínplástra er nikótín. Nikótínplástrar er til í mismunandi styrkleikum. Þannig getur þú fundið skammtastærð sem hentar þér og gefur þér nægan stuðning gegn fráhvarfseinkennum.
Algengustu styrkleikar nikótínplástra eru eftirfarandi:
- 7 mg
- 10 mg
- 14 mg
- 15 mg
- 21 mg
- 25 mg
Mismunandi magn nikótíns í ólíkum tegundum plástra gerir það að verkum að þú getur trappað magn nikótíns niður á meðferðartímabilinu.
Hafa nikótínplástrar einhverjar aukaverkanir?
Upptaka nikótíns í líkamanum hefur að sjálfsögðu í för með sér einhverja áhættu. Fyrir utan nikótín tengd áhrif getur notkun nikótínplástra einnig leitt til nokkurra húðvandamála.
Algengar aukaverkanir nikótínplástra eru:
- Húðvandamál
- Kláði
- Ógleði
- Svimi
- Kviðverkir
- Svefntruflanir
- Hjartsláttarónot
Þessar aukaverkanir eru venjulega tímabundnar og ganga yfirleitt yfir þegar þú hefur vanist meðferð með nikótínplástrinum.
Þú gætir líka fundið fyrir vandamálum sem tengjast fráhvarfseinkennum.
Hve marga nikótínplástra á ég að kaupa?
Það eru til sólarhringsplástrar (24 klukkustundir) og dagsplástrar (16 klukkustundir). Þeir eru einnig til í mismunandi styrkleika.
Ráðlagt að hefja meðferð með einum sólarhringsplástri á dag, plásturinn er þá settur á að morgni og látinn virka í 24 klukkustundir. Þá skiptir þú yfir í nýjan plástur. Sólarhringsplástur hentar þeim sem finna fyrir reykingalöngun þegar þeir vakna og vilja fá nikótín meðan þeir sofa.
Hjá mörgum er nóg að nota plástur sem verkar í 16 klukkustundir. Viðkomandi fær þá einungis nikótín meðan hann er vakandi og á fótum.
Ráðlagt er að byrja meðhöndlun með plástri sem er með aðeins of miklu nikótíni til að geta síðan minnkað skammtinn niður í plástur sem inniheldur minna magn á 1-2 mánuðum.
Hvað kosta nikótínplástrar?
Verð nikótínplástra fer eftir styrkleika, fjölda í pakkningu og framleiðanda. Allir þessir þættir hafa áhrif á verðið. Pakkningar með 7 plástrum kosta yfirleitt í kringum 4500 krónur.
Get ég notað nikótínplástra á meðgöngu?
Nei, þú ættir ekki að nota nikótín eða tóbak á meðgöngu. Það eru fullt af vísindarannsóknum sem sýna hversu skaðlegt nikótín er fyrir fóstrið. Nikótín í líkama móður gerir það að verkum að blóðflæði til fylgju og til legsins skerðist verulega. Þetta hefur aftur áhrif á þroska barnsins.
Brjóstagjöf og nikótín eiga heldur ekki vel saman. Nikótínið í blóði móður berst með brjóstamjólkinni yfir til barnsins og hefur heilsufarslega áhættu í för með sér.
Ef þú ert barnshafandi er öruggara að reyna að hætta að reykja án nikótínlyfja, einfaldlega til að lágmarka áhættuna fyrir barnið og þig sjálfa.
Leitaðu ráða hjá lækni eða ljósmóður ef þú þarft meiri stuðning, ráðgjöf eða hjálp vegna nikótínmeðferðar á meðgöngu og við brjóstagjöf.
Nikótínplástrar og börn
Nikótín er mjög sterkt eiturefni og það er sérstaklega hættulegt litlum börnum. Börn sem hafa fengið í sig nikótín geta fengið greinileg einkenni eins og til dæmis:
- Ógleði
- Uppköst
- Höfuðverk
- Svima
Losun nikótíns frá nikótínplástrum er að vísu langtímaferli, en er engu að síður mjög skaðlegt barninu. Alltaf skal geyma nikótínplástra þar sem börn hvorki ná til né sjá. Gættu þess einnig vandlega að notaðir plástrar lendi ekki einhversstaðar þar sem forvitin börn geta náð í þá. Gott ráð er að brjóta notaðan plásturinn saman með límið að innanverðu – það lágmarkar hættuna á því að plásturinn valdi barni skaða.
Ef barnið þitt gleypir nikótínplástur óvart skaltu strax hringja í eitrunarmiðstöð landspítalans og fylgja þeim leiðbeiningum sem þú færð.
Hvar kaupi ég nikótínplástra?
Nikótínplástrar fást án lyfseðils. Þú færð þá í apótekinu innan um önnur lyf og ráð gegn reykingum. Nikótínplástrar fást einnig í hefðbundnum matvöruverslunum. Þú getur meira að segja verslað þér nikótínplástur í vefverslunum.
Þú verður að vera 18 ára til þess að geta keypt nikótínplástra.
Gættu þess að lesa alltaf fylgiseðilinn áður en þú setur á þig nikótínplástur. Til að fá fram bestu áhrifin og til þess að þér líði sem best á meðan á meðferð stendur er mikilvægt að þú fylgir ráðlögðum skammtastærðum og takir ekki of stóra eða litla skammta.
Hvert á líkamann á maður að setja nikótínplástur?
Almennt séð virka plástrarnir á flestum húðsvæðum. Bestu áhrifin nást þó fram ef þú setur plásturinn á svæði húðarinnar þar sem ekki er sár, þar sem húðin er þurr og hrein og engin hár eru til staðar.
Algengustu og mest prófuðu svæðin til að setja nikótínplástur á eru:
- Bak
- Upphandleggur
- Mjöðm
- Brjóstkassi
Til þess að plásturinn sitji fastur á húðinni skaltu ýta fast á hann með lófanum þannig að hann festist almennilega.
Nikótínplástrar geta í vissum tilvikum ert húðina og þess vegna er best að þú skiptir um staðsetningu plástursins í hvert skipti – láttu líða viku á milli þess sem þú notar sama húðsvæði til að forðast ertingu í húð eða kláða.
Til að byrja með getur þér fundist skrýtið að hafa eitthvað fast við húðina en flestir venjast því smám saman. Hjá flestum verður það rútína að setja á sig og taka af nikótínplástra. Það verður bara eðlilegur hluti af tilverunni.
Ef þér finnst óþægilegt eða vandræðalegt að bera nikótínplástra getur þú einfaldlega falið plásturinn undir fötunum. Veldu staðsetningu þar sem plásturinn sést ekki. Að reyna að hætta að reykja og standast fráhvarfseinkenni er ekki auðvelt – þú átt ekki að þurfa að skammast þín eða finna fyrir óþægindum af því að þú notar nikótínplástra eða önnur hjálpartæki/lyf.
Af hverju ætti ég að velja nikótínplástra?
Ert þú að íhuga að nota nikótínplástra? Til hamingju! Það þýðir að þú vilt hætta að reykja. Erfið en frábær ákvörðun.
En eru nikótínplástrar góður kostur fyrir þig? Það fer eftir því hvað þér finnst þægilegast. Fyrir suma fela plástrarnir í sér góðan stuðning – þú setur plásturinn einfaldlega á þig og þarft ekki að hafa áhyggjur af fráhvarfseinkennum þann daginn. Plásturinn er bara fastur við húðina og gefur frá sér jafnan og öruggan skammt af nikótíni á nokkrum klukkustundum.
Hjá öðrum sem eru vanir því að vera sífellt með eitthvað í höndunum getur verið erfiðara að nota nikótínplástra.
Best er að prófa sig áfram. Svo lengi sem plásturinn fær þig til að sleppa svo ekki sé nema einni sígarettu er það strax ávinningur.
Nikótínplástrar og reykingar?
Löngun í reykingar er sterk og jafnvel þeir sem nota nikótínplástra geta fundið fyrir löngun í sígarettur. En hvað gerist ef þú reykir á sama tíma og þú notar nikótínplástur?
Áhrifin eru háð næmi einstaklingsins fyrir miklu magni nikótíns en það er ekki ráðlagt að nota nikótínplástra og halda síðan áfram að reykja eins og ekkert sé. Jafnvel sá sem er vanur nikótíni og hefur notað tóbak í mörg ár getur fengið nikótíneitrun og farið að líða mjög illa.
Hvað gerist ef ég innbyrði of mikið magn nikótíns?
Þú getur m.a. fundið fyrir:
- Hröðum hjartslætti
- Ógleði
- Uppköstum
Ef þú þjáist nú þegar af hjarta- og æðasjúkdómum getur nikótíneitrun verið sérstaklega skaðleg. Tilgangurinn með nikótínplástrunum er augljóslega að verða algerlega laus við fíknina – ekki aðeins að skipta út einum nikótíngjafa fyrir annan. Ef þú nú notar plástrana samkvæmt ráðleggingum, þá áttu meiri möguleika á að ná takmarki þínu og hefja reyklaust og nikótínfrítt líf.