Hvað gerist í líkamanum þegar hætt er að reykja?

Þegar þú hættir að reykja finnur þú strax muninn. Auðvitað eru sumir hlutir erfiðir. Fráhvarfseinkennin, löngunin í reykingar, erfiðleikar við að einbeita sér, kvíði, þreyta, svefnvandamál – já, listinn yfir neikvæðar tilfinningar eftir að þú hefur hætt að reykja getur því miður verið langur.

En það getur verið kostur að finna líka fyrir öllu því jákvæða sem gerist í líkamanum þegar þú verður reyklaus. Því sá listi getur nefnilega líka orðið langur. Og ef þú berð saman hið jákvæða og hið neikvæða verður fljótt ljóst að kostirnir eru reyklausa lífinu í hag. ⚖

Hér færð þú nánari upplýsingar um það sem gerist í líkamanum þegar þú hættir. Ef þú ætlar að hætta skaltu geyma þessar upplýsingar og hafa þær innan handar. Þegar erfiðleikarnir hrannast upp getur verið gott að minna sig á allan þann ávinning sem fylgir því að hætta að reykja.


 

Allt um það sem gerist í líkamanum þegar hætt er að reykja


Hvað gerist í líkamanum þegar hætt er að reykja – klukkustund fyrir klukkustund

Breytingarnar eru hraðar og þú finnur mun á mjög stuttum tíma. Líkaminn er svo vanur því að fá jafnt og þétt skammta af nikótíni að hann bregst meira og minna beint við þegar þú hættir að láta hann fá það sem hann vill.

 

Þetta gerist fyrstu klukkustundirnar eftir að þú hefur hætt að reykja:

Eftir aðeins um 20 mínútur frá því að þú reyktir síðustu sígarettuna þína lækkar blóðþrýstingurinn. Það hægist einnig á hjartslættinum og hann stillir sig á eðlilegan og heilbrigðan hraða.

Þetta leiðir aftur til þess að hendur þínar ✋ og fætur 🦶 fá varma sinn til baka þegar blóðflæðið – sem var áður hindrað af reykingum – fær nýjan kraft og kemst núna út í fingur og tær á skilvirkari hátt.

Sama dag og þú hættir að reykja muntu finna fyrir mörgum jákvæðum áhrifum. Um það bil átta klukkustundum eftir að þú hættir getur þú til dæmis upplifað það að þú sért hressari en venjulega – það getur verið háð magni eiturefna, einkum magni kolsýrings, en magn hans hefur nú minnkað í líkamanum. Nikótínið í blóðinu hefur náð að minnka um allt að 90 prósent á sama tíma.

Um það bil 4 klukkustundum síðar – í heildina 12 tímum eftir að þú hættir – er súrefnisinnihald blóðsins aftur orðið eðlilegt, sem er mjög jákvætt!

24 klukkustundir. Nú hefur þú verið reyklaus í heilan sólarhring. Þetta getur orðið erfitt núna því þú gætir hafa náð toppnum í þeim kvíða sem nikótínfráhvarf hefur oft í för með sér. Reyndu að halda ró þinni og vera sterk/ur. Kvíðinn – sem flestir fyrri reykingamenn geta borið vitni um – er virkilega erfiður og óþægilegur en varir ekki lengi! Mundu að fyrir hvern dag sem líður og þú ert reyklaus minnkar þú hættuna á því að veikjast, t.d. af hjartaáfalli

Hvað gerist í líkamanum þegar hætt er að reykja – einn dagur í einu

Bara það að geta rætt um tíma sinn sem reyklaus manneskja í dögum í staðinn fyrir í klukkustundum er gríðarlegur sigur sem þú getur verið mjög stolt/ur yfir. Þú hefur náð þetta langt – láttu það vera þér hvatningu til að fara alla leið!

 

Þetta gerist í líkamanum í fyrstu vikunni eftir að þú hættir:

Tveir dagar líða frá því að þú hefur hætt að reykja þar til sjálfbætandi ferli líkamans fara af stað. Taugaskaði sem reykingarnar hafa valdið byrjar að ganga tilbaka. Þú finnur mikinn mun þegar þú borðar því lyktar og bragðskyn fer nú að verða eðlilegt en það er mjög takmarkað hjá reykingafólki. Bragð og lykt verður nú greinilegri og sterkari – njóttu matarins! 🌮

Þrír sólarhringar – fleiri jákvæðir hlutir gerast! Ef þú þarft að láta taka blóðprufu þá mælist ekki lengur neitt nikótín í líkama þínum. Lungun sem hafa orðið fyrir miklu álagi vegna reyks byrja að hreinsa sig sjálf. Á sama tíma er þetta tímabil þar sem þú getur fundið fyrir mjög mikilli löngun í reykingar – þetta er að miklu leyti andlegt viðbragð. Ekki gefast upp – þú ert þegar búin/n að taka stór og mikilvæg skref á vegferð þinni!

Sjö sólarhringar – heil vika án sígarettna. Það er stórkostlegt! Þú mátt vera óskaplega stolt/ur yfir árangri þínum. Löngunin í reykingar getur verið til staðar – þú finnur fyrir henni við og við. Venjulega er farinn að líða langur tími á milli reykingalöngunar þegar hér er komið við sögu, sennilega finnur þú bara fyrir reykingalöngun þrisvar sinnum á dag. Og þessi löngun er ekki langvarandi. Hún varir að hámarki í tvær til þrjár mínútur.

Langur tími líður – þú tekur fleiri og stærri skref fram á við

Þetta verður auðveldara með tímanum. Ef þér tekst að komast í gegnum þetta þá sérðu fram á mikinn ávinning.

 

Þetta gerist í líkamanum á nokkrum mánuðum eftir að þú hættir:

Þrjár vikur búnar og þú ert nú komin/n yfir versta hjallann við að hætta að reykja. Fráhvarfseinkenni og neikvæðu tilfinningarnar sem fylgja þeim eru horfnar. Þér líður vel, þú ert glaður og orkumikill. Reiðin, depurðin og svefnerfiðleikarnir eru horfnir.

Tveir reyklausir mánuðir – betri öndunargeta lungna, meiri styrkur, minni hætta á beinþynningu. Þetta er rétti tíminn til að byrja að hreyfa sig og styrkja! 🏃‍♀️

Þrír reyklausir mánuðir – núna er blóðrásin mörgum ljósárum betri en þegar þú reyktir og þú hefur dregið verulega úr líkunum á hjartaáfalli. Húð þín er ekki lengur grá eins og hjá reykingafólki, þú lítur heilbrigðari út. Stinningarvandamál heyra sögunni til, löngun í kynlíf eykst og um leið aukast lífsgæði þín örugglega umtalsvert.

Hálft ár reyklaus – finnst þér ekki gott að draga andann? Ekki skrýtið! Bifhárin í lungunum þínum hafa eignast nýtt líf. Hóstinn sem hefur annars fylgt þér stöðugt er horfinn.

Hvað gerist í líkamanum þegar hætt er að reykja – ár fyrir ár

Eitt reyklaust ár – hættan á heilablóðfalli hefur minnkað um 50 prósent. Ónæmiskerfið þitt hefur styrkst verulega. Þú hefur bætt dögum og árum við líf þitt.

Fimm reyklaus ár – þær frumur sem voru á forstigi krabbameins hafa allar læknast. Hætta þín á erfiðum sjúkdómum eins og heilablæðingu er orðin sú sama og hjá þeim sem ekki reykir.

10 ár – sígaretturnar eru minning ein. Og veistu að þú hefur minnkað líkur þínar á lungnakrabbameini um helming. Þú hefur aftur fengið lífið, heilsuna og frelsið til baka. Njóttu og vertu stoltur af árangri þínum – þú ert hetja! 🦸‍♂️

Að hætta að reykja – fráhvarf

Þú svitnar, þú ert pirruð/pirraður, þú ert með höfuðverk og finnur fyrir depurð. Allir sem reyna að hætta að reykja þekkja þessi fráhvarfseinkenni. Þetta er erfitt og stundum finnst manni ómögulegt að bjarga sér eina sekúndu í viðbót án sígarettu.

En mundu: Það er hægt að fá hjálp gegn fráhvarfinu.  Fráhvarfseinkennin ganga yfir –  þér mun líða miklu betur til lengri tíma litið. 😍


 

Allt um fráhvarf frá reykingum


Hvað er fráhvarf?

Hvað merkir fráhvarf? Orðið merkir einfaldlega að halda sig frá einhverju. Nútímaskilgreining á fráhvarfi eru þau líkamlegu og andlegu viðbrögð sem þú færð þegar þú hættir að nota eða taka inn ákveðið efni, til dæmis nikótín.

Fráhvarfseinkenni

Ef þú hættir að reykja eða taka í vörina gætir þú fundið fyrir ýmsum fráhvarfseinkennum. Sum er líkamleg og önnur andleg. Það er algengt að finna fyrir sterkri löngun í nikótín. Þú gætir einnig fundið fyrir miklum pirringi og önugheitum. Depurð er algeng og fólk getur jafnvel orðið þunglynt. Skapsveiflur sem ná alveg frá kvíða til erfiðleika við að einbeita sér geta einnig komið fram.

Hrein líkamleg fráhvarfseinkenni, þ.e. einkenni sem maður finnur fyrir í líkamanum, geta verið:

  • höfuðverkur
  • svitaköst
  • þreyta
  • skjálfti
  • erfiðleikar við svefn
  • bætt matarlyst
  • magaverkir
  • meltingarvandamál

Fráhvarfseinkenni geta verið virkilega óþægileg og truflað ásetning þinn um að lifa reyklausu lífi til frambúðar. En jafnvel þó þetta sé erfitt eru fráhvarfseinkennin ekki hættuleg heilsu þinni og þau líða hjá.

Dag frá degi – svona kemst þú í gegnum fráhvarf frá nikótíni

Hve lengi finnur maður fyrir fráhvarfseinkennum nikótíns? Það er mismunandi í hverju tilfelli fyrir sig. Sumir finna mest fyrir líkamlegum fráhvarfseinkennum á meðan öðrum finnst andlega erfitt að hætta. Líkamleg einkenni líða yfirleitt hjá á nokkrum dögum en það eru andlegu einkennin, sjálfur vaninn, sem geta varað miklu lengur.

Við skulum skoða hvernig reykingafráhvarfið er dag frá degi:

  • Líkamlegu einkennin koma yfirleitt fram innan 4–24 klukkustunda frá síðustu sígarettunni eða síðasta munntóbaksskammtinum.
  • Fráhvarfseinkennin eru verst þremur dögum eftir að þú hættir. Á næstu þremur til fjórum vikum minnka einkennin smám saman.

Reykingalöngun og triggerar

Reykingalöngunin getur verið mikil og heilinn getur reynt að spila með þig eftir að þú hefur slökkt í síðustu sígarettunni. Ákveðnar umhverfisaðstæður, fólk og kringumstæður geta auðveldlega kveikt í reykingalöngun eða löngun í munntóbak, þrátt fyrir að líkami þinn sé orðinn laus við nikótínfíknina. 🤔

Það sem getur hjálpað gegn fráhvarfinu er að reyna að einbeita sér að þeim jákvæðu kostum sem fylgja því að vera laus við reykingar og munntóbak.

Því vissulega finnur þú fyrir mörgum jákvæðum breytingum, ekki satt? Til dæmis finnur þú kannski fyrir því að bragð- og lyktarskyn verður betra? Þú átt auðveldara með öndun?

Hjálp gegn fráhvarfi – gagnleg ráð

Fráhvarfið er erfitt en mundu að þú ert sterkari. Með nokkrum góðum ráðum getur þú komist í gegnum fráhvarfið og orðið hamingjusamari, heilbrigðari og orkumeiri.

  • Gerðu lista yfir ástæður þess að þú vilt hætta að reykja. Skrifaðu þær niður og geymdu þær hjá þér. 📝

Þegar löngunin er sem sterkust getur þú einbeitt þér að því af hverju þig langar til að hætta að reykja eða hætta að nota munntóbak. Það getur verið af heilsufarsástæðum. Þú getur örugglega haft þínar eigin, mjög persónulegu ástæður fyrir því að vilja hætta. Hafðu listann aðgengilegan og kíktu á hann þegar þér líður illa.

  • Verðlaunaðu þig 🥳

Hefur þú þolað við í heila klukkustund án sígarettu? Gott! Hefur þú þolað við í heila viku án sígarettu? Það er stórkostlegt. Sérhvert lítið skref fram á við er þess virði að taka eftir og halda upp á. Þú ert þess virði að þér sé fagnað. Og það þarf ekki að vera neitt dýrt eða erfitt í framkvæmd. Finndu eitthvað sem gleður þig. Gönguferð í náttúrunni, góður hádegisverður eða heitt bað. Allt eru þetta góð verðlaun þegar þér tekst að vinna gegn reykingalönguninni.

  • Gættu þess að vera með áreiðanlegt fólk í kringum þig. 👭

Að fá stuðning frá þeim sem standa manni nærri er mjög mikilvægt til að halda þetta út. Vinir og fjölskylda geta verið góður stuðningur, en það er einnig gott að treysta á fólk sem hefur beinlínis gengið í gegnum það sama og þú. Þekkir þú fólk sem reykti áður? Leitaðu til þess og fáðu ráðleggingar – það veit nákvæmlega hvernig þér líður.

Prófaðu Zonnic nikótínúðann!

Dregur úr nikótínlöngun á einni mínútu.

Nikótínúði

Svona dregur þú úr skapsveiflum þegar þú hættir að reykja

Þú hefur reykt þína síðustu sígarettu. Og þar með hefur þú gert líkama þínum og heilsu raunverulegan greiða. Sennilega hefur þú lengt líf þitt.

En af hverju ertu þá svona niðurdregin/n? Vissulega er dálítið óréttlátt að reykleysi hafi í för með sér skapsveiflur eða jafnvel þunglyndi og kvíða? Fyrir marga sem hætta að reykja eru það einmitt þessi tilfinningalegu vandamál sem eiga sér stað þegar líkaminn fær ekki nikótín lengur. Þetta getur verið mjög erfitt – jafnvel svo erfitt að þú freistast til að taka upp sígaretturnar aftur – en þessar tilfinningar eru eðlilegar. Það er hægt að meðhöndla þær og þær ganga yfir.

Hér lítum við nánar á þær tilfinningalegu áskoranir sem geta komið fram þegar þú hættir að reykja og gefum ráðleggingar um hvernig þú getur meðhöndlað fráhvarf.


 

Allt um að hætta að reykja og skapsveiflur


Af hverju er ég í svona vondu skapi þegar ég hef hætt að reykja?

Þú finnur fyrir pirringi. Þú finnur fyrir leiða. Þú finnur fyrir kvíða. Þú finnur fyrir almennum þyngslum. Tilfinningarnar sem þú upplifir tengjast efnahvörfum í heilanum þínum. Nikótínið í sígarettunum örvar nefnilega heilann og gerir það að verkum að hann losar kemísk efni sem gefa þér vellíðunartilfinningu – þetta ferli er sökudólgur fíknisjúkdóma. Þegar heilinn hefur vanið sig við að fá þessar gleði „sturtur“ með nikótíninu er einfaldlega orðið mjög erfitt að hætta að reykja.

Þegar vellíðanin sem þú ert vanur að finna fyrir er ekki lengur til staðar gjósa upp neikvæðar tilfinningar og reykingalöngunin eykst. Nú eru það fráhvarfseinkennin sem stjórna.

En mundu eftirfarandi:

  • Neikvæðu tilfinningarnar eru tímabundnar!
  • Það er hægt að meðhöndla þær!
  • Einbeittu þér að jákvæðu áhrifum þess að hætta að reykja – það getur hjálpað þér að standa við fyrirætlan þína!

Þunglyndi þegar hætt er að reykja

Hjá flestum sem hætta að reykja líða neikvæðar tilfinningar depurðar og pirrings hjá á um það bil tveimur vikum. En hjá sumum vara tilfinningarnar lengur og þá getur spurningin vaknað hvort um sé að ræða raunverulegt þunglyndi. Þá getur verið freistandi að snúa sér aftur að sígarettunum, þar sem þær lyfta manni að minnsta kosti upp í skamman tíma. Það er hins vegar alls ekki góð lausn og mjög skaðlegt fyrir heilsu þína til lengri tíma litið.

Þunglyndi er ástand sem er hægt að meðhöndla og á að meðhöndla út af fyrir sig. Sjúkdómurinn er flókinn og getur átt sér margar undirliggjandi orsakir.

Ef þig grunar að þú þjáist af þunglyndi skaltu gæta þess að leita hjálpar hjá heilsugæslunni.

Dæmi um meðferð gegn þunglyndi getur m.a. verið:

  • Samtalmeðferð með sálfræðingi eða geðlækni sem er sérfræðingur í slíku
  • Þú færð þunglyndislyf
  • Meðferðin er blanda af samtalmeðferð og lyfjagjöf

Kvíði þegar þú hættir að reykja

Reykingar og andleg heilsa hanga saman, þar sem sígarettur hafa áhrif á heila þinn. Hjá mörgum sem þjást af kvíða geta sígarettur meira að segja virkað sem eins konar sjálfsmeðferð – og þegar reykingum er hætt geta kvíðatilfinningarnar aukist vegna fráhvarfseinkenna. Reykingar geta þannig orðið leið til að höndla kvíða og þunglyndi.

En kvíði er ástand sem á sér yfirleitt dýpri orsakir og það að dempa þunglyndi og kvíða með tóbaki er engin sjálfbær lausn. Best væri að finna ástæðuna fyrir kvíðanum og byrjað að vinna með hana. Það getur aukið möguleika þína á því að takast að hætta að reykja. Ef þú getur höndlað þann kvíða sem kemur upp hjá þér þegar þú hættir að reykja er líklegt að þú getir einnig staðist reykingalöngunina.

Kvíði getur komið fram eftir að hætt er að reykja, jafnvel hjá fólki sem aldrei hefur fundið fyrir honum. Þetta er eitt algengasta einkennið sem getur komið fram þegar hætt er að reykja. Kvíðatilfinningar eru eðlileg aukaverkun og hjá flestum líður kvíðinn fljótt hjá.

Svona meðhöndlar þú skapsveiflurnar

Að hætta að reykja getur valdið tilfinningalegu ójafnvægi. Ef þú hefur áður – þegar þú reyktir – verið tiltölulega jafnlynd/ur getur verið mikil breyting fólgin í því að sveiflast allt í einu úr einu tilfinningaástandi yfir í annað. Þetta er einnig stór ástæða þess að margir gefast upp – tilfinningasveiflurnar verða einfaldlega of erfiðar og reykingalöngunin nær yfirhöndinni.

Það er gott að vita að það eru í raun til snjallar, reyklausar leiðir til að ráða við tilfinningarnar:

  • Virkur lífsstíll. Með því að hreyfa þig gerir þú bæði líkama þínum og sál greiða. Gönguferðir, kort í ræktina, skokk – allt eru þetta hlutir sem losa „gleðihormón“ úr heilanum sem draga úr neikvæðum tilfinningum. Að sjálfsögðu getur verið erfitt að finna orku til að hreyfa sig þegar maður er dapur en ef þú finnur kraftinn getur þú hlotið góð verðlaun með því að komast í betra skap.
  • Að umgangast ættingja og vini. Ef maður er þunglyndur er auðvelt að draga sig í hlé og hætta að umgangast aðra. Reyndu að halda tengslum við þá sem þér líkar við – annaðhvort með því að hittast eða gegnum síma eða SMS. Að hafa samskipti við fólk sem þér líkar vel við getur dregið úr depurð.
  • Áætlun og skipulag. Neikvæðar tilfinningar koma gjarnan fram þegar þú ert ekki með neitt á dagskrá. Ef þú gætir þess að skipuleggja daginn með virkni og athöfnum allan daginn er líklegt að depurð og þunglyndi fái hreinlega ekki mikið pláss í lífi þínu.
  • Verðlaun. Gerðu lista yfir það sem gerir þig glaða/n og sem þér finnst skemmtilegt. Listinn er verðlaunakerfið þitt. Þegar þú finnur fyrir depurð eða pirringi er rétti tíminn til að verðlauna sig. Og það þarf eiginlega ekki að vera neitt mikið – gott snarl, róandi athöfn eða að horfa á góðan sjónvarpsþátt er allt eitthvað sem getur virkað. Þar sem þú ert að hætta að reykja og ert á erfiðri vegferð máttu dekra alveg sérstaklega mikið við sjálfa/n þig.

Óbeinar reykingar – heilsufarsvandi og umhverfisvandamál

Reykingar hafa ekki bara áhrif á þann sem reykir. Jafnvel ættingjar og þeir sem eru í nágrenni þess sem reykir geta orðið fyrir neikvæðum áhrifum – jafnvel þó þeir hafi sjálfir aldrei kveikt í sígarettu. Að hætta að reykja getur þannig verið jákvætt fyrir fleiri en þig. Fjölskylda þín og vinir hagnast einnig á því að þú hættir  að reykja.


 

Allt um óbeinar reykingar


Hvað er átt við með óbeinum reykingum?

Óbeinar reykinga þýða að þú reykir ekki sjálf/ur heldur færð þú tóbaksreykinn frá fólki í umhverfi þínu og þannig verður þú fyrir þeim neikvæðu áhrifum sem reykingar hafa í för með sér.

Að verða fyrir óbeinum reykingum í langan tíma felur í sér jafn mikla áhættu fyrir heilsuna og hefðbundnar reykingar.

Hvað þýða óbeinar reykingar fyrir heilsu mína?

Að anda að sér tóbaksreyk frá öðrum er í raun það sama eins og að reykja sjálfur. Sá sem verður fyrir óbeinum reykingum getur því fengið í sig jafn mikið af þeim skaðlegu efnum og eiturefnum sem eru í tóbaksreyk og reykingamaðurinn sjálfur. Ef maður er þar að auki viðkvæm/ur fyrir reyk þá geta óbeinar reykingar orðið óþægilegar og ertandi. Svo er lyktin ekki góð – lyktin festist í fötum þess sem ekki reykir á sama hátt og hjá reykingafólkinu sjálfu.

Algeng einkenni eða erfiðleikar vegna óbeinna reykinga eru:

  • erting í augum
  • hósti
  • sviðatilfinning í hálsinum
  • höfuðverkur
  • andþyngsli

 

Hvað gerist í líkamanum þegar maður reykir?

Reykmagnið og hversu lengi maður er útsettur fyrir óbeinum reykingum hefur bein áhrif á það hversu neikvæð áhrifin eru á heilsuna.

  • Útsetning fyrir tóbaksreyk í langan tíma getur aukið líkur á lungnakrabbameini um 20%.
  • Hættan á hjartaáfalli eykst um 30 prósent.
  • Hjá fólki með hjartasjúkdóma geta óbeinar reykingar aukið hættuna á andnauð.
  • Astmi og ofnæmi geta versnað vegna óbeinna reykinga og einnig hættan á langvinnum sjúkdómum í öndunarvegi.

 

Reykir þú en vilt draga úr heilsufarsáhættu fyrir nærumhverfi þitt og fjölskyldu þína? Mundu þá eftirfarandi:

  • Reyndu alltaf að halda þig í mikilli fjarlægð frá öðrum, einkum börnum.
  • Reyndu að skipta um föt eftir að þú hefur reykt – reykmettuð föt bera með sér eiturefni úr sígarettureyk.
  • Prófaðu að sleppa sígarettunni og fá þér í staðinn nikótínlyf, til dæmis sogtöflur eða nikótínúða. Þessi lyf losa þig við stærsta hlutann af lönguninni og hafa ekki neikvæð áhrif á líf annarra í kringum þig.

Óbeinar reykingar og börn

Börn og tóbak eiga að sjálfsögðu ekki samleið og ungabörn eru sérstaklega viðkvæm fyrir óbeinum reykingum. Börn sem alast upp í umhverfi sem er fyllt tóbaksreyk fá oftar sýkingar í lungu og eyru heldur en börn sem búa á reyklausum heimilum. Þetta gerist vegna þess að lungu þeirra starfa einfaldlega verr og slímhimnur og öndunarvegurinn eru viðkvæmari fyrir sýkingum.

Ertu nýlega orðin/n foreldri? Mundu að óbeinar reykingar auka líkurnar á vöggudauða. Að halda heimilinu lausu við tóbaksreyk er öruggasta og heilsusamlegasta leiðin. 🚭

Að hætta að reykja sem foreldri er þannig stór gjöf ekki bara til foreldrisins heldur einnig til barnanna og til makans. Fjölskyldan á meiri möguleika á heilsusamlegu lífi og þannig fær maður mögulega lengri tíma með ástvinum sínum.

Óbeinar reykingar á meðgöngu og við brjóstagjöf

Ef þú ert barnshafandi er þér ráðlagt að forðast reykfyllt rými eins og hægt er. Reykurinn sem móðirin andar að sér hefur nefnilega afar neikvæð áhrif á fóstrið. Meðal annars er líklegra að barnið fái ofnæmi eða astma.

En það er því miður hægt að lengja listann yfir áhættuna enn frekar. Ein rannsókn sýnir til dæmis fram á að óbeinar reykingar á meðgöngu geti skert hreyfigetu og athyglisgáfu barnsins umtalsvert. Barn móður sem hefur verið í reykfylltu umhverfi er einnig líklegra til að verða háð tóbaki á unglingsaldri.

Hvaða áhrif hafa óbeinar reykingar á hundinn minn og önnur gæludýr?

Það er ekki bara heilsa fólks sem er í hættu þegar um er að ræða óbeinar reykingar. Meira að segja fjórfættum vinum okkar líður illa ef mamma eða pabbi reykja. Rannsókn frá Háskólanum í Glasgow bendir til dæmis á að hættan á því að gæludýr fái krabbamein eykst á heimilum þar sem er reykt.

Kettir eru í sérstaklega mikilli hættu. 😿 Tilgáta vísindamanna er að mikið magn skaðlegra efna festist í feldi katta og síðan sleikja kettirnir sig og þrífa og fá eiturefnin í sig.

Við verðum einnig að muna að gæludýrin okkar eru flest með lítil og mjög viðkvæm nef. Fólk á oft í erfiðleikum vegna lyktarinnar af tóbaksreyk. Hundur sem er með mun næmara þefskyn verður því líklega fyrir enn meiri ertingu en við mennirnir.

Þyngdaraukning við að hætta að reykja

Ásetningur og hvatning eru mikilvægustu þættirnir sem stjórna því hvort maður verður reyklaus. Þess vegna getur verið leiðinlegt að þyngjast eftir að hætt er að reykja. Manni finnst þetta hreint og beint ósanngjarnt. Hér ert þú að gera góða hluti – hættir að reykja – og þá kemur baðvogin skyndilega með leiðinlegar athugasemdir.


 

Allt um þyngdaraukningu við að hætta að reykja


Það er eðlilegt að þyngjast þegar maður hættir að reykja

Þú ert ekki eina manneskjan sem hefur þyngst eftir að hafa hætt að reykja. Þetta er ein algengasta „neikvæða“ afleiðingin af því að hætta að reykja: Fyrrum reykingamenn þyngjast yfirleitt um tvö til fjögur kíló á fyrsta reyklausa mánuðinum.

Það er eðlilegt að velta fyrir sér vali sínu um að hætta að reykja ef manni líður ekki lengur vel í líkamanum. Ásetningurinn er ótrúlega mikilvægur til að berjast á móti löngun í sígarettu. Þess vegna koma hér nokkur mikilvæg ráð til að halda ásetningnum.👌

Að þyngjast og að halda ásetningi sínum

Að þyngjast er eðlileg og vel viðráðanleg aukaverkun þess að verða reyklaus. Með réttum ráðstöfunum í mat, þjálfun og líkamsrækt verður auðveldara að halda bæði löngun í reykingar og sætindi í skefjum.

 

Af hverju þyngist maður þegar maður hættir að reykja?

Það eru margar ástæður fyrir því að fólk þyngist eftir að hafa hætt að reykja.

Nikótín hefur áhrif á brennslu líkamans með því að auka hraða efnaskiptanna. Það er staðreynd að nikótín eykur bruna hitaeininga í hvíld um 7 til 15 prósent. Án nikótíns getur brennsla líkamans hægt á sér og þú getur fengið óþarfa aukakíló.

Meiri matarlyst þegar hætt er að reykja

Tóbak hefur einnig önnur áhrif. Það getur dregið úr matarlyst. Reykingar geta valdið því að matarlystin minnkar. Með því að hætta að reykja fær líkaminn sterkari hungurskilaboð en áður – því svengri sem þú ert, því líklegra er að þú fáir þér að borða. Ósköp einfalt. 😊

Andlega hlið reykinga er einnig mikilvæg. Venjan að halda á sígarettu og fá sinn reyk getur verið jafn vanabindandi og líkamlega löngunin í nikótín. Þess vegna er mikilvægt að gera eitthvað annað með höndunum og munninum en að reykja.

Hættu að reykja án þess að þyngjast

Er hægt að hætta að reykja án þess að þyngjast? Já, það er hægt! Með því að tileinka þér hollt og gott mataræði og reglulega hreyfingu getur þú haldið mittismálinu í skefjum. 🏖

Svona dregur þú úr reykingalöngun

Það er auðveldara að segja það en framkvæma, en það er gott ráð að skipuleggja máltíðir. Ef þú borðar reglulega er líklegra að þú forðist löngun í mat þegar blóðsykurinn fellur hratt niður. Þegar þú borðar hollan og góðan mat er auðveldara að standa í lappirnar þegar þig langar í sætindi. Það geta einnig verið nokkrar freistingar heima í eldhússkápunum, þannig að þú skalt bíta saman tönnunum og henda út snakki, súkkulaði og kökum. Löngun í sætindi er eins og löngun í reyk – þetta líður hratt hjá.

  • Skipulegðu máltíðir þínar
  • Haltu blóðsykrinum jöfnum til að forðast löngun í mat
  • Borðaðu hollan mat sem inniheldur fáar hitaeiningar
  • Taktu út nammi og sætindi

Hugsaðu grænt!

Það skiptir auðvitað máli að borða hollan mat. Spurningin er auðvitað sú hvaða matur er góður þegar maður hættir að reykja. Hugsaðu grænt! Skrifaðu innkaupalista áður en þú kaupir inn og gættu þess að á listanum sé nóg af grænmeti, ávöxtum og öðrum mat sem inniheldur fáar hitaeiningar. Það eykur líkurnar á því að þú náir jafnvægi í mataræðinu. 🥗

Gott snarl

Mataræði á ekki að vera áhyggjuefni á sama tíma og maður hættir að reykja. Það er fínt að leyfa sér að borða góðan mat sem er einnig hollur. Það mikilvæga er að borða vel. Ekki hætta alveg að borða. Prófaðu snarl sem inniheldur minna af sykri.

Það getur verið gott að komast í gegnum daginn með eftirfarandi snarli:

  • Eplaskífur
  • Litlar gulrætur 🥕
  • Ósaltaðar hnetur

Stundum er það tilfinningin að hafa ekkert í munninum sem veldur vandræðum. Í staðinn fyrir sígarettu skaltu prófa:

  • Grænmeti sem snarl
  • Tyggigúmmí (sykurlaust)
  • Hálstöflur (sykurlausar)

Vatn er kannski það allra besta sem þú getur innbyrt. Eitt glas af vatni eða tvö draga úr hungurtilfinningu og minnka löngun í sætindi. Gott vökvajafnvægi hjálpar þér einfaldlega að líða mun betur.

Hættu að reykja og grenntu þig með því að stunda hreyfingu

Hefur þú hætt að reykja eða nota munntóbak og fundið fyrir þyngdaraukningu? Slakaðu á, það eru til margar leiðir til að ná niður þyngd.

Rétt mataræði skiptir máli, en líkamsrækt og hreyfing er einnig áhrifarík til að halda líkamsþyngd innan eðlilegra marka. Þú getur komist langt með einfaldri hreyfingu dags daglega:

  • Farðu upp stigann í stað þess að taka lyftuna.
  • Hjólaðu í vinnuna.
  • Farðu í gönguferð í hádeginu.

Ef þú finnur leið til líkamsræktar sem veitir þér löngun og gleði, þá verður það einfaldlega sjálfsögð leið til að berjast við hitaeiningarnar. Þjálfun hefur auk þess þann góða kost að hún hjálpar þér að losna fljótt við alla löngun í reykingar.

Hættu að reykja – Hagur fyrir þig og umhverfi þitt

Ertu að hugsa um að hætta eða draga úr reykingum? Hér listum við upp nokkra jákvæða hluti sem geta hvatt þig áfram. Þú getur líka fundið ráð sem hjálpa þér á leiðinni.

Mundu að það er aldrei of seint að hætta að reykja. Ekki gleyma áföngunum, hver sígaretta sem þú velur að reykja ekki er sigur! Hæfni líkamans til að lækna sig er svo miklu meiri en þú kannski veist. Þegar þú hefur ákveðið að hætta getur þú hlakkað til margra jákvæðra áhrifa.


 

11 Frábærir kostir þess að hætta að reykja


1. Betra lyktar- og bragðskyn

Tóbak dregur úr getu til að skynja lykt og bragð. Eftir örfáa reyklausa daga munt þú enduruppgötva bragðskynið. Matur og drykkur mun bragðast betur! Þú gætir jafnvel uppgötvað að eitthvað sem þér fannst bragðast frekar illa verði uppáhaldið þitt.🥗

Ábending: Þegar þú hefur verið reyklaus í 48 klukkustundir skaltu dekra við þig með góðri máltíð. Kannski ættir þú að prófa veitingastað sem þú hefur haft áhuga á, eða prófa bragðgóðan mat aftur með þínu nýja bragðskyni. Þetta mun koma þér á óvart!

2. Betra kynlíf

Einn stór kostur við að hætta að reykja sem margir kunna að meta er að kynlífið verður betra. Þetta á bæði við um karla og konur, sérstaklega þá sem eldri eru. Reykingar hafa neikvæð áhrif á bæði kynhvöt og ánægjuna. Ef þú ert að hugsa um að eignast börn þá eru reykingar slæm blanda. Reykingar hafa neikvæð áhrif á æxlunarfæri manna og kvenna, sem getur gert það erfiðara fyrir konur að verða þungaðar og getur síðar haft áhrif á heilsu barnsins.

Ábending: Vertu heiðarleg(ur) við sjálfan þig og sjáðu hvernig þér líður þegar þú hættir að reykja.

3. Húðin verður betri

Í tóbaki eru fjölmörg óholl efni sem menga húðina og gefa henni mattan, eilítið gráan blæ. Þegar þú reykir minnkar kollagenframleiðsla húðarinnar. Þetta gerir húðina þína minna teygjanlegri. Þegar þú hættir að reykja muntu taka eftir því hvernig húðin verður mýkri og ljómar meira.💎

Ábending: Hjálpaðu húðinni að jafna sig. Hreinsaðu, skrúbbaðu og nuddaðu. Notaðu andlitsmaska, krem og serum. Sýnilegur árangur þegar þú horfir í spegil getur stutt þig í ákvörðun þinni um að hætta.

4. Ferskari andardráttur

Reykingar eru erfiðar fyrir munninn, tennurnar og góminn.

Þegar sígarettur eru út úr myndinni verður andardráttur þinn ferskari og auðveldara verður að sjá um mislitaðar tennurnar. Þegar þú reykir er auðvelt að taka ekki eftir bólgu í tannholdinu. Blóðrásin er verri hjá reykingamönnum, sem getur valdið því að tannholdið lítur betur út en það er í raun.

Þegar þú hættir að reykja getur tannholdið verið viðkvæmt og jafnvel blætt úr því þegar þú burstar tennurnar. Þetta er merki um að tannheilsu þinni sé ábótavant.

Ábending: Burstaðu tennurnar oftar. Notaðu tannþráð. Notaðu tannkrem sem fjarlægir bletti varlega án þess að hvítta tennurnar. Pantaðu tíma hjá tannlækninum og lagaðu tennurnar. Nýtt bros getur líka hjálpað þér að halda áfram að vera áhugasamur. 😁

5. Betri blóðrás

Betri blóðrás! Stundum aðeins 2 vikum eftir að þú hættir að reykja. Þegar blóðið getur flutt súrefni á skilvirkari hátt í gegnum líkamann muntu geta jafnað þig hraðar eftir æfingar, lækningu eða aðgerðir.

Ábending: Byrjaðu að hreyfa þig eða farðu að hreyfa þig þegar þú hættir að reykja þannig að þú byrjar upp á nýtt dags daglega. Það er mikilvægt að skapa nýja ávana sem fela ekki í sér reykingar. Byrjaðu smátt og auktu svo við þig. Hreyfing hjálpar blóðrásinni en umfram allt eykur líkamlegan og andlegan þrótt!

6. Blóðþrýstingurinn lækkar

Reykingar geta aukið blóðþrýstinginn og aukið hjartslátt. Einn stór kostur við að hætta að reykja er að blóðþrýstingurinn fer niður á eðlilegra stig. Blóðþrýstingur er svolítið erfiður að átta sig á og það er ekki eitt sem hentar öllum. En lægri blóðþrýstingur er talinn draga úr hættu á sjúkdómum eins og heilablóðfalli, hjartaáfalli og hjartabilun.

Ábending: Það eru nokkrar einfaldar leiðir til að lækka blóðþrýstinginn með náttúrulegum hætti. Hægur og djúpur andardráttur dregur úr streitu í líkamanum, prófaðu jóga eða lyf eða gefðu þér tíma til rólegra athafna eins og að lesa bók. 📖

7. Hrjóta minna

Reykingar valda því að slímhúðin bólgnar og stuðla þannig að hrotum. Þetta getur haft áhrif á hversu vel þú eða þeir sem eru í kringum þig sofa. Léleg svefngæði hafa í för með sér bæði andlega og líkamlega áhættu.

Ábending: Ef hrotur hafa haft áhrif á einhvern í návist þinni skaltu athuga með viðkomandi hvort einhver breyting hafi orðið eftir að þú hættir að reykja. Ef þeir sofa betur vegna þess að þú hrjótir ekki lengur, þá getur þetta verið sterk hvatning til að halda áfram að hætta að reykja.

8. Ónæmiskerfið styrkist

Þegar þú velur að reykja ekki sígarettur styrkist ónæmiskerfið líka. Þá er líkaminn betur í stakk búinn að takast á við kvef og aðra sjúkdóma.

Ábending: Notaðu tækifærið til að styrkja ónæmiskerfið enn frekar með því að borða matvæli sem innihalda C-vítamín og E-vítamíni, eins og hnetur og heilkorna mat, matvæli sem eru rík af sinki, svo sem kalkún og krabba, matvæli sem er rík af seleni, svo sem kjúkling, egg og túnfisk. 🥗

9. Lungnageta eykst

Einn mikilvægur kostur að hætta að reykja er að þú átt auðveldara með að anda. Þú munt nú þegar finna hvernig lungnagetan eykst eftir nokkrar vikur. Þetta þýðir að þú munt eiga auðveldara með að hreyfa þig og stunda líkamsrækt á þann hátt sem þú hefðir kannski ekki iðkað áður.

Ábending: Andaðu djúpt og rólega. Þegar lungun jafna sig muntu finna fyrir muninum. Þegar þú tekur eftir framförunum eru engar hindranir í vegi fyrir því að auka hreyfingu þína.

10. Hóstaðu minna

Þegar þú hættir að reykja gætir þú hóstað mikið til að byrja með. Þessi hósti er í raun mjög gott merki um að lungun séu að jafna sig. Þú getur andað rólega, þetta mun ekki endast mjög lengi. 😊

Ábending: Heitt vatn getur dregið úr ertingu í hálsi sem getur framkallast vegna hóstans.

11. Minni líkur á krabbameini

Líkur á að þjást af krabbameini minnka ef þú hættir að reykja, sama hvort þú hættir að reykja fyrr eða síðar. Ein sígaretta framleiðir þúsundir mismunandi efna, mörg þeirra hafa alvarleg skaðleg áhrif á líkamann. Það ert ekki bara þú sem átt á hættu að fá krabbamein, hættan eykst líka fyrir þá í kringum þig sem anda að sér reyknum.

Ábending: Það er erfitt að hætta að reykja, en það er mikill ávinningur af því. Með því að hætta að reykja verndar þú fólkið í kringum þig. Þú andar að þér fjórðungi reyksins. Restin fer út í umhverfi þitt og breytir öðrum í óbeina reykingamenn. Leitaðu stuðnings hjá vinum og vandamönnum, allir græða þegar reykingarnar hætta. 👨‍👩‍👧‍👦

Hversu margir vilja hætta að reykja?

Árið 2022 reyktu 6,2 % fullorðinna Íslendinga daglega. Hlutfall reykingamanna hefur lækkað á undanförnum árum. Erfitt er að áætla hversu margir hafa reynt að hætta eða vilja hætta.

Eru einhverjir kostir við reykingar?

Stutta svarið er nei. Reykurinn frá sígarettum inniheldur mörg eitruð efni sem geta skaðað heilsu fólks.

Hvaða kostir fylgja því að hætta að reykja?

Það eru margir kostir sem fylgja því að hætta að reykja. Að reykja ekki er líklega eitt það besta sem þú reykingamaðurinn gerir fyrir heilsuna þína.

  • Blóðþrýstingur og púls fara aftur í eðlilegt horf
  • Hættan á hjartaáfalli minnkar
  • Hættan á krabbameini minnkar
  • Hættan á blóðtappa minnkar
  • Kynlíf þitt kann að batna
  • Munnheilsan verður betri
  • Þú verndar umhverfi þitt
  • Húðin verður betri
  • Betra lyktar- og bragðskyn

Hvers vegna byrjar fólk að reykja?

Það eru mörg svör við þeirri spurningu. Oft byrjar fólk að reykja á unga aldri og vill líkjast fullorðnum. Það gæti snúist um að leita að sjálfsmynd sinni. Spurningin hvers vegna fólk heldur áfram að reykja þrátt fyrir að það sé hættulegt er vegna þess að sígarettur eru mjög ávanabindandi.

Hvers vegna eru reykingar hættulegar?

Þú andar að þér fjölmörgum eitruðum efnum sem geta skaðað heilsu þína alvarlega. Með sama hætti er hætta á að þú skaðir umhverfi þitt með óbeinum reykingum. Reykingar fela í sér:

  • Hækkaður blóðþrýstingur og hærri púls
  • Hættan á hjartaáfalli eykst
  • Auknar líkur á krabbameini
  • Hættan á blóðtappa eykst
  • Verra kynlíf
  • Það getur verið erfiðara fyrir þig að verða ólétt
  • Munnheilsan verður verri
  • Hefur áhrif á umhverfið með óbeinum reykingum
  • Hósti þess sem reykir
  • Húðvandamál geta skapast
  • Verra lyktar- og bragðskyn

Afleiðingar reykinga

Leitar þú að hvatningu til að hætta að reykja? Hér finnur þú lista yfir afleiðingar reykinga. Hvaða áhrif reykingar hafa á líkamann og hvaða sjúkdóma þú ert í hættu á að fá.

Þegar þú hefur lesið listann og um það sem gerist í líkamanum hugsar þú kannski, „nú er tími til að hætta!“.

Ef þú veltir því fyrir þér að draga úr reykingum, eða að hætta alveg, hefur þú þegar tekið fyrsta skrefið. Það er aldrei of seint að hætta að reykja. Líkami okkar hefur ótrúlega getu til að ná bata! Mundu að sérhver sígaretta sem þú sleppir er unninn sigur. 🏆


 

Afleiðingar reykinga – listinn sem þú verður að lesa


Hvernig valda reykingar hárlosi?

Reykingar hafa neikvæð áhrif á allt blóðrásarkerfið.

Skert flæði blóðs og súrefnis vegna reykinga getur skemmt hársekkina þína, þynnt hárið og jafnvel valdið hárlosi.

Hvernig valda reykingar höfuðverk?

Langflestir hafa einhvern tímann fengið höfuðverk. Yfirleitt er slíkt ekkert hættulegt og líður fljótt hjá. 🤯

Höfuðverkur getur meðal annars skapast vegna spennu en hann getur einnig orsakast af reykingum. Þegar þú kveikir í sígarettu þá losnar meðal annars eitruð lofttegund (kolmónoxíð) og hún getur valdið höfuðverk.

Af hverju fær maður höfuðverk af reykingum?

Kolmónoxíð (eitruð gastegund) myndast við brennslu náttúrulegra efna í sígarettum.

Rauðu blóðkornin flytja súrefni til allra líffæra líkamans. En rauðu blóðkornin bindast frekar kolmónoxíði en súrefni. Það þýðir að rauðu blóðkornin flytja kolmónoxíð um líkamann í stað súrefnis.

Kolmónoxíð getur orsakað svima, höfuðverk og ógleði.

Hvaða áhrif hafa reykingar á augun?

Reykingar geta valdið sjónskerðingu. Þú getur fengið gláku, sem er sjúkdómur sem veldur því að allt verður hálf óskýrt.

Reykingafólk fær einnig frekar en aðrir aldurstengda sjónskerðingu 🙈

Þegar þú reykir eykst hættan á dreri (ský á auga) og jafnvel gláku. Gláka veldur þokukenndri sjón og þegar um slíkt er að ræða er aðgerð eina lausnin. Samanborið við aðra er reykingafólk í hættu á að þróa með sér aldurstengda sjóndepilsrýrnun. Slíkt getur leitt til varanlegs sjóntaps þar sem reykingar eru aðal orsakaþátturinn.

Hvaða áhrif hafa reykingar á tennurnar?

Það að tennur byrji að losna getur hrjáð bæði reykingafólk og þá sem ekki reykja. Reykingar hins vegar fela fyrstu varúðareinkenni lausra tanna!

Reykingafólk getur því misst af því hvað er að gerast. Tannholdið lítur mikið betur út en það er í raun og veru. Þess vegna uppgötvar þú ekki vandamálið fyrr en það fer að verða virkilega alvarlegt.

Reykurinn gerir tennurnar einnig mislitar. 🙊

Viðvörunarmerkin um tannholdsbólgu á byrjunarstigi geta verið blæðandi tannhold eða eymsli. Reykingamenn eiga það á hættu að missa af fyrstu viðvörunarmerkjum vegna þess að þeir eru með lakara blóðflæði. Reykingar geta látið tannholdið líta betur út en það er í raun og það getur þýtt að tannholdssjúkdómur uppgötvast ekki fyrr en á síðari stigum, þegar það getur verið miklu erfiðara að meðhöndla hann.

Hvernig áhrif hafa reykingar á eymsli í hálsi og hósta?

Reykingar geta stuðlað að hósta og eymslum í hálsi. Reykurinn ertir slímhúðina í hálsinum. Slíkt getur leitt til sviða eða til sársauka.

Hósti er í grunninn varnarviðbragð líkamans sem hann notar til að halda öndunarveginum hreinum.

Grunar þig að hóstinn þinn sé eitthvað meira en venjulegt kvef? 🤧 Þá skalt þú fara á heilsugæslustöðina og láta kíkja á þig.

Þrálátur hósti með seigum uppgangi (reykhósti) getur verið merki um langvinna lungnateppu.  Grunar þig að þú sért með lungnasjúkdóm? Hafðu samband við heilsugæsluna til að fá örugga greiningu. Heilsugæslan getur einnig hjálpað þér að hætta að reykja. Það mikilvæga er að þú komist að því af hverju þú hóstar svona og fáir rétta meðferð.

Hvaða áhrif hafa reykingar á lungun?

Áhrif reykinga eru mismunandi milli manna en allir reykingamenn verða fyrir einhverjum skaða á lungum.

Í lungunum eru milljónir lítilla lungnablaðra  sem geta eyðilagst varanlega við reykingar. Þegar þú reykir berst einnig tjara ofan í lungun. Það gerir lungunum erfiðara fyrir að flytja súrefni um líkamann og tryggja að þú getir andað eðlilega.

Reykingar koma bæði tjöru og kolsýringi í lungun sem dregur enn frekar úr flutningi súrefnis um líkamann. Þegar þú reykir verður erfiðara fyrir lungun að taka upp súrefni.

Reykingar hafa mismunandi áhrif á fólk, en tjónið sem þær valda er varanlegt. Tjónið sem skapast þegar þú reykir breytist í eðlilegt öldrunarferli þegar þú hættir að reykja. Hættan á að þjást af alvarlegum öndunarfærasjúkdómum getur einnig minnkað eftir að þú hættir að reykja.

Hvaða áhrif hafa reykingar á meltingarkerfið?

Getur manni orðið illt í maganum af reykingum? Já, efni í reyknum geta hægt á þarmahreyfingum sem veldur því að meltingarkerfið þarf að erfiða meira sem leiðir til streitu og verkja.

Hætta er á því að reykingafólk geti fengið magasár þar sem reykingar hafa áhrif á ónæmiskerfið. Reykingar gera það einnig að verkum að magasár eru lengur að gróa.

Venjuleg einkenni tengd reykingum eru sársauki ofarlega í kvið, ógleði og þú mettast mjög fljótt þegar þú borðar.

Hvernig hafa reykingar áhrif á efnaskipti líkamans?

Reykingar auka hraða efnaskipta líkamans og geta einnig dregið úr matarlyst.

Þetta gæti valdið þér áhyggjum af því að þú þyngist þegar þú hættir að reykja. En rannsóknir sýna að þetta samband er aðeins flóknara – margir langtíma reykingamenn þyngjast í raun með tímanum. Þetta er vegna þess að líkaminn venst eiturefnunum í sígarettunum.

Hvernig hafa reykingar áhrif á hjarta- og æðasjúkdóma?

Algengasta dánarorsök reykingafólks er hjarta- og æðasjúkdómar. Hættan á því að fá hjartaáfall yngri en 40 ára er fimm sinnum meiri hjá þeim sem reykja en hjá þeim sem reykja ekki.

Reykingar skerða virkni æða og hættan á blóðtöppum eykst. Í samanburði við þá sem ekki reykja ertu í tvöfalt meiri hættu á að fá hjartasjúkdóma, æðakölkun og heilablóðfall. Reykingar leiða til þess að fita og skellur myndast innan á æðaveggjunum sjálfum. Slík þróun eykur áhættuna á hjartaáfalli.

Rannsóknir hafa einnig sýnt að tóbaksreykingar valda bólgum í æðaveggjum. Veruleg tengsl eru á milli skellumyndunar og æðakölkunar. Reykingafólk er í meiri hættu á að þjást að æðakölkun í ósæð sem getur valdið meiriháttar fylgikvillum vegna skorts á blóðflæði um líkamann, sérstaklega fótleggja.  Slíkt getur leitt til blóðþurrðarheltis. Það er æðasjúkdómur sem veldur verkjum og kraftleysi í fótum (einkum kálfum) og helti sem kemur fram við gang og linast við hvíld. Blóðþurrðarhelti stafar af vaxandi blóðþurrð í vöðvum vegna blóðrásartruflunar í slagæð. Í alvarlegum tilvikum getur þurft að fjarlægja fæturna með skurðaðgerð. Samkvæmt Hjartavernd eru níu af hverjum tíu sem fá sjúkdóminn reykingafólk.

Hvaða áhrif hafa reykingar á blóðrásina?

Þegar þú reykir dregur úr flæði blóðs um líkamann.

Þar sem blóðflæði er minna eru allar bólgur lengur að hjaðna. Að auki er hjartað undir álagi og neyðist til að slá hraðar.

Blóðið flytur súrefni og næringu til allra líffæra líkamans svo að frumur þínar, vöðvar og innri líffæri geti starfað sem allra best. Mjólkursýra og úrgangsefni eru einnig flutt burt af blóðinu sem gefur vöðvum líkamans möguleika á því að jafna sig. Góð blóðrás veldur því að allar bólgur hjaðna frekar og læknast. En þegar þú reykir hamlar þú þessari virkni blóðrásarinnar. Minna súrefni en venjulega er flutt til líffæra líkamans og þrýstingurinn hækkar þegar blóðinu er dælt um líkamann en slíkt hækkar blóðþrýstinginn. Hjarta þitt lendir undir álagi þar sem það neyðist til að slá hraðar. Blóðið verður meira seigfljótandi, slímhimnur æðaveggjanna skaðast og þú færð minna blóðflæði út í fingur og tær.

Reykingar og sjúkdómar

Reykingamenn eru í meiri hættu á að þjást af ýmsum sjúkdómum. Sumir þeirra alvarlegir, jafnvel lífshættulegir.

Hver sígaretta sem þú kveikir í losar þúsundir eitraðra agna og lofttegunda. Þessar agnir berast síðan um líkamann uppleystar í blóði og brjóta niður varnir líkamans.

Hvaða sjúkdóma getur maður fengið af reykingum?

Hjarta- og æðasjúkdómar eru algengustu sjúkdómarnir sem tengjast reykingum. Þar á eftir koma lungnasjúkdómar. Hættan á því að fá krabbamein eykst. Reykingar geta einnig leitt til myndunar magasárs, sjónskerðingar, beinþynningar og tannslíðursbólgu.

Hvernig hafa reykingar áhrif á sýkingar í líkamanum?

Finnst þér þú fá kvef í hvert skipti sem einhver hóstar? Það er sennilega rétt hjá þér. Reykingar hafa mjög mikil áhrif á ónæmiskerfið og leiða til þess að líkaminn hefur mun minni varnir gegn sýkingum.

Hvernig geta reykingar haft áhrif á líkamsrækt og styrktarþjálfun?

Súrefni er nauðsynlegt fyrir líkamlega áreynslu. Reykingafólk er með lélegri blóðrás og þar af leiðandi á erfiðara með öndun. Þetta þýðir að geta þín til að halda orku á lengri æfingu eða auka styrk minnkar þegar þú reykir.

Þú munt því aldrei ná hámarks árangri í líkamsræktinni. Líkaminn þinn mun einfaldlega ekki geta gert sitt besta á meðan að þú reykir.

Ógleði – hvernig geta reykingar valdið ógleði?

Strax í fyrsta skipti sem þú reyktir gætir þú hafa fundið fyrir neikvæðum viðbrögðum líkamans. Ekki bara með hóstakasti heldur einnig með ógleði.

Eiturefnin í tóbaksreyknum gera það að verkum að þú getur fundið fyrir svima og ógleði.

Hvaða áhrif hafa reykingar á þreytu?

Finnst þér þú nákvæmlega ekkert hafa sofið þegar þú vaknar á morgnana? 🥱 Reykingarnar gætu verið ástæðan. Reykingar hafa neikvæð áhrif á gæði svefns. Þær geta leitt til þess að þú vaknar oft á næturnar. Það verður einnig erfiðara fyrir þig að sofna og djúpur endurnærandi REM-svefn minnkar. Heilinn og líkaminn hafa ekki fengið þá hvíld sem þau þurfa til þess að þér líði vel. Þetta verður til þess að þér líður þannig að þú sért þreyttari en þú þyrftir að vera.

Hvaða áhrif hafa reykingar á geðheilsu?

Geta reykingar valdið geðsjúkdómum?

Rannsóknir sýna að reykingafólk er í meiri hættu á að þjást af þunglyndi en þeir sem ekki reykja. Ekki er vitað hvað það er í sígarettum sem hefur þessi áhrif.

Aftur á móti eru í dag til sannanir fyrir því að þunglyndi og streita minnkar þegar hætt er að reykja.

Ólíkar tegundir reykingafíknar:

  • Efnafræðileg – nikótín er ávanabindandi efni og líkaminn upplifir fráhvarfseinkenni þegar hann fær ekki lengur nikótínið sem hann er vanur að fá.
  • Andleg – þér finnst eins og eitthvað vanti þegar þú reykir ekki. Reykingar geta orðið hluti af sjálfsmynd þinni.
  • Félagsleg – vissar aðstæður eins og veislur og kaffipásur geta kallað fram löngun í reykingar.
  • Vani – Það kemst upp í vana að fá sér sígarettu með fyrsta kaffibolla dagsins, eftir matinn og þegar síminn hringir

Reykingar hafa í för með sér:

  • Fimmtán sinnum meiri hættu á lungnakrabbameini.
  • Tíu sinnum meiri hættu á því að fá langvinna lungnateppu
  • Tíu sinnum meiri hættu á því að fá vélindakrabbamein
  • Fimm sinnum meiri hættu á að fá hjartaáfall yngri en 50 ára.
  • Þrisvar sinnum meiri hættu á því að fá hjartaáfall eftir 50 ára aldur.
  • Þrisvar sinnum meiri hættu á slagi
  • Þrisvar sinnum meiri hættu á krabbameini í þvagblöðru