Uppdaterad: september 3, 2024

Svona dregur þú úr skapsveiflum þegar þú hættir að reykja

Þú hefur reykt þína síðustu sígarettu. Og þar með hefur þú gert líkama þínum og heilsu raunverulegan greiða. Sennilega hefur þú lengt líf þitt.

En af hverju ertu þá svona niðurdregin/n? Vissulega er dálítið óréttlátt að reykleysi hafi í för með sér skapsveiflur eða jafnvel þunglyndi og kvíða? Fyrir marga sem hætta að reykja eru það einmitt þessi tilfinningalegu vandamál sem eiga sér stað þegar líkaminn fær ekki nikótín lengur. Þetta getur verið mjög erfitt – jafnvel svo erfitt að þú freistast til að taka upp sígaretturnar aftur – en þessar tilfinningar eru eðlilegar. Það er hægt að meðhöndla þær og þær ganga yfir.

Hér lítum við nánar á þær tilfinningalegu áskoranir sem geta komið fram þegar þú hættir að reykja og gefum ráðleggingar um hvernig þú getur meðhöndlað fráhvarf.


 

Allt um að hætta að reykja og skapsveiflur


Af hverju er ég í svona vondu skapi þegar ég hef hætt að reykja?

Þú finnur fyrir pirringi. Þú finnur fyrir leiða. Þú finnur fyrir kvíða. Þú finnur fyrir almennum þyngslum. Tilfinningarnar sem þú upplifir tengjast efnahvörfum í heilanum þínum. Nikótínið í sígarettunum örvar nefnilega heilann og gerir það að verkum að hann losar kemísk efni sem gefa þér vellíðunartilfinningu – þetta ferli er sökudólgur fíknisjúkdóma. Þegar heilinn hefur vanið sig við að fá þessar gleði „sturtur“ með nikótíninu er einfaldlega orðið mjög erfitt að hætta að reykja.

Þegar vellíðanin sem þú ert vanur að finna fyrir er ekki lengur til staðar gjósa upp neikvæðar tilfinningar og reykingalöngunin eykst. Nú eru það fráhvarfseinkennin sem stjórna.

En mundu eftirfarandi:

  • Neikvæðu tilfinningarnar eru tímabundnar!
  • Það er hægt að meðhöndla þær!
  • Einbeittu þér að jákvæðu áhrifum þess að hætta að reykja – það getur hjálpað þér að standa við fyrirætlan þína!

Þunglyndi þegar hætt er að reykja

Hjá flestum sem hætta að reykja líða neikvæðar tilfinningar depurðar og pirrings hjá á um það bil tveimur vikum. En hjá sumum vara tilfinningarnar lengur og þá getur spurningin vaknað hvort um sé að ræða raunverulegt þunglyndi. Þá getur verið freistandi að snúa sér aftur að sígarettunum, þar sem þær lyfta manni að minnsta kosti upp í skamman tíma. Það er hins vegar alls ekki góð lausn og mjög skaðlegt fyrir heilsu þína til lengri tíma litið.

Þunglyndi er ástand sem er hægt að meðhöndla og á að meðhöndla út af fyrir sig. Sjúkdómurinn er flókinn og getur átt sér margar undirliggjandi orsakir.

Ef þig grunar að þú þjáist af þunglyndi skaltu gæta þess að leita hjálpar hjá heilsugæslunni.

Dæmi um meðferð gegn þunglyndi getur m.a. verið:

  • Samtalmeðferð með sálfræðingi eða geðlækni sem er sérfræðingur í slíku
  • Þú færð þunglyndislyf
  • Meðferðin er blanda af samtalmeðferð og lyfjagjöf

Kvíði þegar þú hættir að reykja

Reykingar og andleg heilsa hanga saman, þar sem sígarettur hafa áhrif á heila þinn. Hjá mörgum sem þjást af kvíða geta sígarettur meira að segja virkað sem eins konar sjálfsmeðferð – og þegar reykingum er hætt geta kvíðatilfinningarnar aukist vegna fráhvarfseinkenna. Reykingar geta þannig orðið leið til að höndla kvíða og þunglyndi.

En kvíði er ástand sem á sér yfirleitt dýpri orsakir og það að dempa þunglyndi og kvíða með tóbaki er engin sjálfbær lausn. Best væri að finna ástæðuna fyrir kvíðanum og byrjað að vinna með hana. Það getur aukið möguleika þína á því að takast að hætta að reykja. Ef þú getur höndlað þann kvíða sem kemur upp hjá þér þegar þú hættir að reykja er líklegt að þú getir einnig staðist reykingalöngunina.

Kvíði getur komið fram eftir að hætt er að reykja, jafnvel hjá fólki sem aldrei hefur fundið fyrir honum. Þetta er eitt algengasta einkennið sem getur komið fram þegar hætt er að reykja. Kvíðatilfinningar eru eðlileg aukaverkun og hjá flestum líður kvíðinn fljótt hjá.

Svona meðhöndlar þú skapsveiflurnar

Að hætta að reykja getur valdið tilfinningalegu ójafnvægi. Ef þú hefur áður – þegar þú reyktir – verið tiltölulega jafnlynd/ur getur verið mikil breyting fólgin í því að sveiflast allt í einu úr einu tilfinningaástandi yfir í annað. Þetta er einnig stór ástæða þess að margir gefast upp – tilfinningasveiflurnar verða einfaldlega of erfiðar og reykingalöngunin nær yfirhöndinni.

Það er gott að vita að það eru í raun til snjallar, reyklausar leiðir til að ráða við tilfinningarnar:

  • Virkur lífsstíll. Með því að hreyfa þig gerir þú bæði líkama þínum og sál greiða. Gönguferðir, kort í ræktina, skokk – allt eru þetta hlutir sem losa „gleðihormón“ úr heilanum sem draga úr neikvæðum tilfinningum. Að sjálfsögðu getur verið erfitt að finna orku til að hreyfa sig þegar maður er dapur en ef þú finnur kraftinn getur þú hlotið góð verðlaun með því að komast í betra skap.
  • Að umgangast ættingja og vini. Ef maður er þunglyndur er auðvelt að draga sig í hlé og hætta að umgangast aðra. Reyndu að halda tengslum við þá sem þér líkar við – annaðhvort með því að hittast eða gegnum síma eða SMS. Að hafa samskipti við fólk sem þér líkar vel við getur dregið úr depurð.
  • Áætlun og skipulag. Neikvæðar tilfinningar koma gjarnan fram þegar þú ert ekki með neitt á dagskrá. Ef þú gætir þess að skipuleggja daginn með virkni og athöfnum allan daginn er líklegt að depurð og þunglyndi fái hreinlega ekki mikið pláss í lífi þínu.
  • Verðlaun. Gerðu lista yfir það sem gerir þig glaða/n og sem þér finnst skemmtilegt. Listinn er verðlaunakerfið þitt. Þegar þú finnur fyrir depurð eða pirringi er rétti tíminn til að verðlauna sig. Og það þarf eiginlega ekki að vera neitt mikið – gott snarl, róandi athöfn eða að horfa á góðan sjónvarpsþátt er allt eitthvað sem getur virkað. Þar sem þú ert að hætta að reykja og ert á erfiðri vegferð máttu dekra alveg sérstaklega mikið við sjálfa/n þig.